Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 114
114
SVEINN YNGVI EGILSSON
Föðurgarðurinn og ættarreiturinn er staður til að rækta og hverfa til, en um
slíka staði fjallar Martin Heidegger í heimspeki sinni.15 Garður föðurins er
ekki eiginleg náttúra heldur ræktaður staður í heiminum, skjól eða athvarf.
Hann tengist um leið æskunni og felur í sér endurlit og umhugsun um full-
orðinsárin og ellina sem fram undan er. Ljóðmælandinn verður að yfirgefa
staðinn og er hrygg en hann lifir með henni hvert sem hún fer og hún biður
honum blessunar:
Þróast hygg ég heima
hjartans dýpstu völd.
Hér mun hugur sveima
hinsta ævikvöld.
Æskuvon og elliþrá
breiða þráfalt blómin sín
blettinn sama á.16
Þetta er hinn sígræni hugargarður sem fylgir henni ævina á enda. Náttúran
almennt – ekki aðeins hinn ræktaði garður – getur líka gegnt hliðstæðu
hlutverki og verið athvarf konunnar í ljóðum Huldu; hún á hana alltaf að og
getur horfið þangað í huganum þegar hún vill.
Kanadíski fræðimaðurinn Marshall McLuhan telur að ljóðskáld 19. aldar
hafi lagt megináherslu á að lýsa náttúrunni sem skynrænu og fagurfræðilegu
viðfangsefni í anda myndlistarmanna síðari alda. Rómantískir höfundar hafi
þrátt fyrir alla sína huglægni verið mjög bundnir af þeirri kröfu að lýsa veru-
leikanum á hlutlægan hátt, þar sem gengið var út frá ákveðnu sjónarhorni,
hlutföllum, áferð, dýpt, lit, formi og öðrum slíkum þáttum sem myndlistar-
menn höfðu skilgreint í verkum sínum. McLuhan telur að megnið af engil-
saxneskum og frönskum náttúruljóðum 19. aldar einkennist af áherslunni
á hið myndræna og feli í sér tilraun til að draga upp ytri landslagsmyndir
með orðum. Það sé síðan með táknsæisstefnunni á síðari hluta 19. aldar og
módernismanum á fyrri hluta 20. aldar sem landslagið verði sálfræðilegra
og því sé varpað inn á við. Táknsæisskáld og módernistar hafi tekið sér mun
meira frelsi gagnvart náttúrunni og umhverfinu og ekki bundið sig af einu
sjónarhorni eða þeim áherslum sem landslagsmálverk fyrri tíma byggðust
15 Sjá umfjöllun mína um þetta í áðurnefndri grein, „Tilbrigði við skógarhljóð“, bls.
71–73.
16 Hulda, Kvæði, bls. 57.