Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 144
144
Í bókinni Ætt og sögu hefur greinarhöfundur rökstutt þá hugmynd að
höfundur Sturlungu hefði helst kosið að Ísland hefði jarl og samsteypan
lýsi óánægju höfðingjaættanna með að Noregskonungur hafi sent landa
sína með umboð sín til Íslands.83 Arons saga er þvert á móti konungsholl
og tekur greinilega réttsýna konungsstjórn í Noregi fram yfir ófrið sem
stóð af sumum höfðingjum á Íslandi. En eins og vikið var að áður komust
Seldælir, frændur Arons, til mikilla mannvirðinga á 14. öld og gæti það
verið orsökin fyrir dálæti sögunnar á konungsstjórninni og konungsþjón-
ustu Arons. Þeir voru orðnir eins konar aðall á Íslandi.84
Eins og vikið var að í upphafi þessarar greinar hafa tiltölulega fáir
fræðimenn fjallað um Arons sögu. Hún er erfið viðfangs vegna lélegrar
varðveislu. Efni sögunnar er hins vegar áhugavert og hún er vel sögð
að svo miklu leyti sem unnt er að meta það. En konungshollusta Arons
sögu Hjörleifssonar gæti verið meginskýringin á því að sagan er nú lítið
þekkt hér á landi. Andi hennar féll ekki að þjóðernishugmyndum íslenskra
fræðimanna, um fornt „frelsi“ Íslendinga og „ásælni“ Hákonar konungs
Hákonarsonar.85
Hins vegar er sagan gott dæmi um samspil minninga, frásagnarforms
og sagnaritunar í samtíðarsögum.86 Jafnvel þótt sagan geti hafa verið skrif-
uð af klerklærðum manni er hún einkum skrifuð fyrir höfðingjana. Með
samspili sagna og sögu skilgreindu íslenskir valdsmenn stétt sína og sam-
band sitt við Noregskonung á 14. öld.
83 Úlfar Bragason, Ætt og saga, einkum bls. 227–262.
84 Sbr. David Crouch, The English Aristocracy 1070–1272: A Social Transformation,
New Haven: Yale University Press, 2011, bls. xiv–xviii.
85 Sjá Jesse L. Byock, „Modern Nationalism and the Medieval Saga“, í Northern An-
tiquity: The Post-Medieval Reception of Edda and Saga, ritstj. Andrew Wawn, Enfield
Lock (Middlesex): Hisarlik Press, 1994, bls. 163–187.
86 Sbr. McKitterick, History and Memory in the Carolingian World, bls. 8; sjá ennfremur
Carol J. Clover, The Medieval Saga, Ithaca: Cornell University Press, 1982, bls.
188–204.
ÚLFaR bRaGason