Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 117
117
Áherslan á réttlæti gerir að verkum að ég tel mögulegt að samþykkja
lífhyggjusiðfræði McFague sem vissa tegund réttlætissiðfræði þar sem
mikil áhersla er lögð á að samfélagslegt réttlæti ali af sér vistfræðilegt
réttlæti. Mikilvægustu gildin í þessari siðfræði eru virðingin fyrir öllu lífi
og samstaðan með því. Heildin er útgangspunktur réttlætisins. Augljóst
er að þarna sækir McFague í hebreskan arf um hina lifandi náttúru sem
er í gagnkvæmum tengslum við Guð. Guð er nálægur, sköpunin er góð,
Kristur er skapari og frelsari alls heimsins, ekki aðeins mannsins. Sú fem-
íníska og guðfræðilega útgáfa lífhyggjusiðfræði sem hún leggur til ógnar
ekki velferð mannsins að mínu mati og á því fullt erindi til vestræns sam-
félags í dag.
úTDRÁTTUR
Loftslagsbreytingar í guðfræði
Um breytta guðsmynd í kristinni feminískri vistguðfræði
Kröftug umræða um umhverfið, náttúruna og nú síðast hnattræna hlýnun af manna-
völdum fer fram innan kristinnar guðfræði líkt og í öðrum fræðigreinum. Guðfræð-
ingar hafa löngum tekið alvarlega túlkun miðaldasagnfræðingsins Lynns White
(1967) sem hélt því fram að kristni væri mannmiðlægari en önnur trúarbrögð og
sú sérstaða hefði orsakað að hinn vestræni maður hefði ráðskast með náttúruna á
annan og verri hátt en víðast hvar tíðkast í veröldinni. Í þessari grein er sjónum
beint að framlagi femínískra vistguðfræðinga, einkum og sér í lagi Sallie McFague
sem er brautryðjandi á sviði femínískrar vistguðfræði og hefur sett fram áhugavert
guðfræðilegt líkan þar sem hún leitast við að endurtúlka klassískar kristnar guðs-
myndir í því miði að fá fram nýja sýn á náttúruna og stöðu mannsins í heiminum.
Megin spurning greinarinnar snýst um það hvort róttæk femínísk vistguðfræði og
líf hyggjusiðfræði McFague ógni á einhvern hátt reisn og velferð mannsins í heim-
inum. Niðurstaða greinarhöfundar er að svo sé ekki: McFague takist að standa vörð
um reisn og gildi manneskjunnar og því eigi femínísk vistguðfræði hennar fullt
erindi við vestrænt samfélag í dag.
Lykilorð: vistfemínismi, femínísk vistguðfræði, kristin siðfræði, mannskilningur,
mannmiðlægni, lífhyggja, náttúrusýn, guðsskilningur.
LOFTSLAGSBREyTiNGAR Í GUÐFRÆÐi