Peningamál - 01.02.2014, Blaðsíða 34

Peningamál - 01.02.2014, Blaðsíða 34
ÞRÓUN OG HORFUR Í EFNAHAGS- OG PENINGAMÁLUM P E N I N G A M Á L 2 0 1 4 • 1 34 Samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands, sem birt var 20. desember sl., var tólf mánaða verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs 4,2%. Mæld verðbólga fór því út fyrir efri fráviksmörk verðbólgumarkmiðs sem eru 4%. Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands um verðbólgumarkmið frá 27. mars 2001 ber Seðlabankanum að senda ríkisstjórninni greinargerð við þær aðstæður, eins og nánar er gerð grein fyrir í fyrri greinargerðum bankans af þessu tilefni (sjá t.d. síðustu greinargerð frá 12. september 2013 og áðurnefnda yfirlýsingu frá árinu 2001). Tekið hefur verið mið af spá Seðlabanka Íslands frá nóvember síðastliðnum á tveimur síðustu fundum peningastefnunefndar. Sú spá benti til þess að verðbólga gæti farið tímabundið yfir 4%. Nýgerðir kjarasamningar og styrking krónunnar síðustu vikur auka líkur á að verðbólga á fyrstu mánuðum ársins minnki hratt á ný svipað og bank- inn spáði í nóvember. Það er því ekki ástæða til ítarlegri greinargerðar að þessu sinni umfram það sem fram kemur í þessu bréfi hér á eftir. Bréfið verður birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands fyrir opnun markaða á morgun, þriðjudaginn 7. janúar 2014. Aukna verðbólgu í desember má einkum rekja til hækkunar hús- næðiskostnaðar en án húsnæðiskostnaðar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,3% undanfarna tólf mánuði. Þó hefur verðlag þjónustu einnig hækkað umtalsvert umfram annað verðlag en á móti vegur að verðlag innfluttrar vöru hefur einungis hækkað um 1,2% á sama tíma, eða 0,6% ef áfengi og tóbak eru undanskilin. Verðbólga á fjórða ársfjórðungi 2013 mældist 3,8%, eða jafnmikil og Seðlabankinn spáði í Peningamálum 2013/4 sem birtust snemma í nóvember. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga hjaðna í 3,3% þegar á fyrsta fjórðungi þess árs sem nú er nýhafið. Frá því að sú spá var gerð hefur gengi krónunnar styrkst og var í lok síðasta árs 2½% sterkara en miðað var við í spánni. Þá benda nýgerðir kjarasamningar til þess að launakostnaður á framleidda einingu gæti aukist eitthvað minna á þessu ári en reiknað var með í spá bankans en það er þó háð því að launaskrið haldist innan hóflegra marka. Á móti kemur að aðgerðir til að lækka skuldir heimila gætu aukið verðbólgu en þau áhrif koma fram yfir lengra tímabil og munu vart hafa nein teljandi áhrif á verðbólgu næstu mánaða. Á heildina litið eru því töluverðar líkur á því að verð- bólga minnki hratt á næstunni og að tímabil verðbólgu ofan fráviks- marka verði afar stutt að þessu sinni. Samkvæmt spá bankans frá því í nóvember mun verðbólga þó minnka tiltölulega hægt í átt að verðbólgumarkmiði eftir nokkuð hraða hjöðnun á næstu mánuðum. Í verðbólguspá sem Seðlabankinn mun birta 12. febrúar nk. verður lagt mat á í hve ríkum mæli kjarasamning- ar, nýleg gengisþróun, aðgerðir í skuldamálum og aðrir þættir breyta þessum horfum. Viðauki 3 Greinargerð til ríkisstjórnar um verðbólgu umfram fráviksmörk, 7. janúar 2014

x

Peningamál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Peningamál
https://timarit.is/publication/1144

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.