Skírnir - 01.01.1942, Qupperneq 120
118
Ólafur Lárusson
Skírnir
lítil, hafa uppsprettulindirnar því skipt miklu um afkomu
fólks. ViS þær byggði það borgir sínar og þorp, og snemma
á öldum hafa menn farið að telja lindir vera helgar, eink-
um þó þær, er sérkennilegar voru að einhverju leyti, t. d.
að því er snerti hitastig, rennsli, legu eða heilnæmi. Fórn-
ir voru færðar hinum helgu lindum og er sá siður ævaforn.
í Danmörku hafa t. d. fundizt minjar slíkra fórna frá eir-
öld. Lindin sjálf var talin vera guðdómur, sbr. guðinn
Fons, Fontanus, Fontana hjá Rómverjum, eða hún var
talin vera bústaður dularvætta, t. d. dreka, sbr. Dreka-
lindina, sem Nehemias spámaður getur um, og þó oftar
dísa, sbr. vatnadísir, nymphur, Grikkja. Kristnin tók við
trúnni á lindirnar, eins og svo mörgu öðru úr heiðninni,
og færði hana í kristinn búning. Kirkjur og bænhús voru
byggð við lindir, þær voru kenndar við helga menn og fólk
sótti til þeirra til að leita sér heilsubótar.
Á Norðurlöndum voru víða helgar lindir. í Danmörku
einni hafa verið skráðar ekki færri en 618 helgar lindir.13)
Helgi sumra af lindum þessum nær langt aftur í forneskju
og enginn efi er á því, að um þær mundir, sem ísland
byggðist, hefir trú á lindir verið algeng á Norðurlöndum.
Þess sjást þó engin ótvíræð merki nú á tímum, að helgar
lindir hafi verið hér á landi í heiðni, en vel má svo hafa
verið. Vitað er, að menn blótuðu lundi (Þórir snepill)14)
og fossa (Þorsteinn rauðnefur),15) en annars er eðlilegt,
að minna hafi kveðið að þess konar náttúruhelgidómum
í nýfundnu landi eins og ísland var en að þeim kvað í lönd-
um, sem byggð höfðu verið aftan úr forneskju.
Hungurvaka getur þess, að Bjarnvarður biskup hinn
saxneski, er hér dvaldi um 20 ára skeið um miðbik 11. ald-
ar, hafi vígt marga hluti og þar á meðal brunna og
vötn, „ok þikja þessir hlutir hafa birt sanna tign hans
gæzku“.10) Enga nánari grein vitum vér nú á vígslum
hans og auk hans er Guðmundur biskup eini maðurinn,
sem vitað er um, að vígt hafi brunna hér á landi, og ber
sögunum um hann saman um það, að mikið hafi kveðið
að þeim vígslum hans. Arngrímur ábóti kemst svo að orði: