Skírnir - 01.01.1973, Blaðsíða 29
SKÍRNIR
FORNESKJ UTAUT
27
jafnsnemma frökkum, munar kanski hálfri öld. En frammað þeim
tíma hafði kaþólska kirkjan kallað allar túngur þrælamál nema
latínu, grísku og hebresku. í þriðju kynslóð íslenskra sagnahöfunda
verður loks íslenskan einhlít og latínan aukaatriði. Um 1200 rökn-
um við úr hinu sæla kristilega roti trúboðstímans, má vera fyrir
tilstuðlan franskra og enskra riddarabókmenta sem bárust óðfluga
til Islands og voru þýddar. Nema altíeinu förum við að sjá sjálfa
okkur í landinu í sagnfræðilegum tíma, eftir að hafa ekki séð ann-
að en kraftaverk guðs í 200 ár. Við upptendrumst í draumsjón um
rismikið mannlíf til forna, og fáum heimþrá til sællar — og þó ekki
sællar, en samt sællar - fortíðar sem leingi hafði myrkvi legið yfir;
og þarmeð er vakinn frumtónn þjóðlegs söguljóðs. Vakníngarskeið
fornstefnunnar er runnið upp, „fornvakníngin“, og elur af sér gull-
aldarbókmentir í sögu og ljóði á tímabili sem aldrei varð leingra
en nemur broti úr öld, 13du öld; flest stórfeldustu verkin hafa
orðið til samtímis og eiga saman í formi sem efni, svo þau virðast
öll vera partur af einu verki, unnin í félagsvinnu eins og vinnu-
hópar úr öllum landsfjórðúngum hefðu sammælst á fjöllum til að
leggja alt landið undir eitt vegakerfi. Þessir menn virðast ekki einu-
sinni þekkja hver annan, þeir segja ekki einusinni til nafns; einginn
veit hver skipaði þeim fyrir verkum; laun þeirra eru þessi vegur
sem þeir eru að leggja gegnum óbygðir tímans handa öldum og
óbornum.
Skýríng á fyrirbrigðinu er vandfundin, verður amk ekki læst í
formúlu, en hliðstæður eru ekki óþektar. Nærtækt á síðari tímum
er það dæmi á 19du öld öndverðri, er upp rann óforvarandis í einni
kynslóð tylft eða meira slíkra öndvegishölda í bókmentum, að ekki
hafa aðrir spjarað sig betur síðan, og það gerðist í Rússlandi, ósið-
uðu keisaradæmi sem myndað var og mótað af hinni „gullnu hers-
íngu“ tatara; ég læt nægja að nefna Gogol, Turgenéf, Tolstoj og
Dostoévskí svosem til samsvörunar við egluhöfund, laxdæluhöfund,
eyrbyggjuhöfund og njáluhöfund. Einnig má í þessa veru minna á
hið furðulega uppgos tónmeistara sem litlu fyr átti sér stað á
þraungu þýsk-austurrísku svæði, að Vín sem miðdepli, og hefur
tónsköpun þeirra manna drotnað yfir Vesturlöndum síðan; ég nefni
aftur fjögur nöfn: Haydn, Mozart, Beethoven, Schubert.
I íslenskum kenslubókum stendur að eddukvæðin sem landnáms-