Skírnir - 01.01.1973, Page 48
46
HANNES PÉTURSSON
SKÍRNIR
undir þá tilgátu, að ljóð Bangs sé nærtækasta fyrirmynd Sorgar
(„nærmeste forbillede“) eins ogToldberg kveður að orði. Að minni
hyggju er hennar að leita á allt öðrum stað, enda virðast mér um-
ræddar tilvitnanir fjarlægjast hvor aðra því meir sem þær eru leng-
ur bornar saman.
III
Sorg hefst á biblíulegri upphrópun, líkt og þar talaði einn hinna
spámannlegu sjáenda og vandlætara úr testamentunum. Og sá streng-
ur málsins sem þar er sleginn hljómar síðan, eins og áður getur,
allt til kvæðisloka. Það er ekki aðeins að orðanna röð sé sums stað-
ar biblíuleg, og eins orðavalið, heldur grípur skáldið þegar í upp-
hafserindinu til hins fornkunnuga stílbragðs Gyðinga að ríma eina
hugsun við aðra, eða ef til vill mætti segja: innríma einu og sömu
hugsun, með því að hún er endurtekin í nýrri mynd. Þessar línur
láta í eyrum líkt og þær væru úr glötuðum lofsöng í ætt við Ljóða-
Ijóðin:
Eins og kórall í djúpum sjó
varst ]iú undir bláum himninum,
eins og sylgja úr drifnu silfri
hvíldir })ú á brjóstum jarðarinnar.
Stíll Sorgar, hátíðlegur, mælskuborinn í anda hinna helgu ritn-
inga, vekur þá spurningu hvort ljóðið muni ekki styðjast við þær
um fleira en málfarseinkenni, til að mynda línan:
Hvar eru þau fjöll, sem hrynja yfir mína sorg.
Er út í bláinn að ætla að höfundur þessara orða hafi einhvern tíma
lesið eða heyrt Opinberun Jóhannesar 6, 16: „Og þeir segja við fjöll-
in og hamrana: Hrynjið yfir oss . ..“? Og það er í sama riti, 12.
kapítula, að birtist dreki mikill, eiturormur, og hann er rauður og
heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina. I Sorg
fer einnig dreki, hann flýgur í svartnætti eilífðarinnar, er rauður
eins og hinn og spýr eitri. Gæti þar ekki verið kominn sá dreki sem
heitir djöfull og Satan, kominn allt aftan úr Opinberunarbókinni?