Skírnir - 01.01.1973, Qupperneq 115
SKIRNIR
FYLLT UPP I EYÐUR
113
hve því þýðingastarfi, sem unnið var á nítjándu öld, hefur lítt verið
haldið áfram á fyrri hluta þeirrar tuttugustu, og því er það, að við
eigum á íslenzku undarlega fá af þeim verkum, sem meðal erlendra
þjóða hafa verið þýdd hvað eftir annað. Og þeir örfáu, sem hafa
fengizt við slíkt að einhverju gagni, svo sem Magnús Ásgeirsson,
hafa raunar starfað á fremur þröngu sviði og ekki lokið meiri hátt-
ar verkum, nema þá helzt það væri Rubaiyat, en þýðingar fræði-
manna á stærri verkum fullnægja naumast listrænum kröfum.
Á síðustu áratugum má þó segja, að komið hafi talsverður fjör-
kippur í þessa starfsemi, og við höfum eignazt listræna þýðendur
sem leita víða fanga. Af þeim ber náttúrlega fyrst að nefna Helga
Hálfdanarson, sem hefur með ljóðaþýðingum sínum lætt mörgum
gimsteinum úr ýmsum áttum inn í forðabúr tungu okkar, og hefur
nú auk þess ráðizt í þau stórvirki að þýða leikrit Shakespeares og
Antígónu Sófóklesar. Nú hefur Helgi raunar fengið sína verðskuld-
uðu viðurkenningu, en því kann þó að fylgja sú hætta, eins og jafn-
an, að menn vilji setja hann á stall og hæla öllu jafnt, sem hann
gerir, þótt það sé auðvitað misgott. Að fágun, hnitmiðun og smekk-
vísi á Helgi vart sinn líka, og þetta nýtur sín vel í tærum ljóðræn-
um verkum, eins og t. d. óðum Hórasar eða japönskum smáljóðum,
en hins vegar kann svo að vera, að þessir kostir skipti ekki liöfuð-
máli gagnvart villtara og gróskumeira tungutaki leiksviðsins, þar
sem meira er komið undir beinni skírskotun og ástríðuþunga en
hnökraleysi og fágun orðsins. Með tilliti til þess, hve margt er óþýtt,
hefði Helgi sennilega getað nýtt betur hæfileika sína á annan hátt
en þann að endurþýða þau leikrit, sem Matthías Jochumsson þýddi
á sínum tíma af svo mikilli kynngi. En auk Helga hafa komið fram
á síðustu árum með listrænar þýðingar t. d. þeir Jón Helgason, pró-
fessor, Geir Kristjánsson og Friðrik Þórðarson, þótt enginn þeirra
hafi enn ráðizt í verulegt stórvirki á því sviði.
Það hafa hins vegar gert þeir Guðmundur Böðvarsson með Dante-
þýðingum sínum, Jón Gíslason með þýðingum sínum á grískum
harmleikjum og Yngvi Jóhannesson með þýðingu sinni á Fást eftir
Goethe, en allt þetta kom út nýlega. Þýðingum Guðmundar liafa
áður verið gerð góð skil í þessu riti, og þarf engu þar við að bæta,
en hins vegar má ekki minna vera en að útkoma verka eins og
Oresteiu Æskhýlosar og Fást Goethes verði gerð hér að umtalsefni,
8