Skírnir - 01.01.1973, Page 229
SKÍRNIR
STÓRVELDIN OG LÝÐVELDIÐ
227
gerðu sig líklega til að neita um viðurkenningu. Á slíkri framkomu
var ekki stætt, þegar stórveldin höfðu ákveðið að viðurkenna lýð-
veldið. Það kom líka á daginn, að ekki stóð á viðurkenningu frænd-
þjóðanna.
VIII. FÁLEIKAR SOVÉTRÍKJANNA
Sovétríkin léku aukahlutverk í lýðveldismálinu á við önnur stór-
veldi. Engu að síður er þáttur þeirra í heildarmyndinni athyglis-
verður.
Bretar óttuðust um tíma, að Sovétríkin myndu notfæra sér lýð-
veldisstofnunina til að kaupa sér vinsældir á íslandi. Þeir komust
fljótt að raun um, að þessi ótti var ástæðulaus. Um miðjan maí 1944
tjáði sovézki sendiherrann í Reykjavík, Alexei N. Krassilnikov,
Shepherd, að hann hefði engin fyrirmæli um það, hvernig sér bæri
að snúast við lýðveldisstofnun.1 í maílok lögðu Bretar til, að
sendiherrar stórveldanna bæru fram persónulegar árnaðaróskir
sínar til Islendinga, er tilkynning bærist um lýðveldisstofnun. Bret-
ar ætluðust til, að opinberum hamingjuóskum ríkisstjórna yrði
komið á framfæri á öðrum vettvangi. Það kom á daginn, að sov-
ézki sendiherrann taldi sig enn skorta fyrirmæli. Skýrði Krassilni-
kov Shepherd frá því, að hann hefði beðið stjórn sína um að bæta
úr því.2 Bretar tóku mál þetta upp í Moskvu. Annan dag júnímán-
aðar tilkynnti A. Y. Vyshinsky aðstoðarutanríkisráðherra þeim, að
Krassilnikov hefði verið fyrirskipað að „breyta í samræmi við siða-
reglur, sem venjulega tíðkuðust við slík tækifæri“.3 Þennan sama
dag hafði Krassilnikov slegizt í för með Shepherd og Dreyfus á
fund Vilhjálms Þórs utanríkisráðherra. Afhentu sendiherrarnir ut-
anríkisráðherra bréflegar kveðjur og hamingjuóskir í eigin nafni.
Hamingjuóskirnar túlkuðu Reykjavíkurblöðin á þann veg, að þær
væru komnar frá ríkisstjórnum sendiherranna. Krassilnikov tók
þetta óstinnt upp. Gekk hann svo langt að bera fram munnleg mót-
mæli við Vilhjálm Þór. Sovétsendiherrann lét þess á ný getið, að
hann hefði engin fyrirmæli fengið varðandi lýðveldisstofnun. Er
Shepherd frétti um orð Vyshinskys ályktaði hann, að dráttur hlyti
að hafa orðið á því, að Krassilnikov bærust nefnd fyrirmæli. Það
væri skýringin á framferði hans.4