Skírnir - 01.01.1974, Page 22
PREBEN MEULENGRACHT SÖRENSEN
Sagan um Ingólf og Hjörleif
Athugasemdir um söguskoðun íslendinga á seinni hluta
þjóð veldisaldar
I
I HINU víðtæka rannsóknarstarfi að sögu þjóðarinnar, sem fróðir
menn á íslandi unnu á 12tu öld, hlaut skilningur þeirra á upphafi
byggðar í landinu, landnáminu, að verða mikilvæg forsenda. Land-
námið er ein torræðasta staðreynd íslandssögunnar, og frá upphafi
hlýtur það að hafa skipt íslendinga miklu að vita á því skil hvers
vegna og hvernig þeir höfðu sest að á nýju landi.
Hin fornu sagnarit sýna þörf íslendinga á miðöldum að skipa
sjálfum sér, ætt sinni og samfélagi í samhengi stærri heildar. Þessi
þörf hefur verið sérlega rík með íslendingum þar sem þeir bjuggu
á mörkum hins byggilega, siðmenntaða heims og vegna þess að saga
þeirra hófst sem útfararsaga á tilgreindum tíma, andstætt sögu ná-
grannaþjóðanna sem rekja mátti aftur í forneskju. Sagnamönnum
þjóðveldisins virðist hafa verið mikið í mun að skýra afstöðu hins
íslenska samfélags til umheimsins og stöðu þess í sögunnar rás, og
halda á loft ákveðinni skýringu á landnáminu sem gat lýst landinu
sem sjálfstæðu þjóðríki með eigin sögu að baki og í senn sett þessa
sögu í samhengi mannkynssögunnar, hliðstæða öðrum sögum mið-
aldanna um þjóðflutninga og þjóðsköpun.
Með þessum orðum er enginn dómur felldur um sannleiksgildi
landnámsfrásagnanna, enda ekki að því stefnt með þessum hugleið-
ingum. 011 sagnaritun, og þá ekki síst sagnaritun miðalda, felur í
sér túlkun ósamstæðs efniviðar. Og túlkim efnisins hlítir forsendum
sagnaritarans og lýsir samtíð hans engu síður en þeim tíma sem um
er fjallað. Sagnaritin lýsa fyrst og fremst hugmyndum samtíðar um
fortíðina, söguskoðun samtíðarinnar - en þau eru annað og meir en
endurspeglun ríkjandi hugsunarháttar og félagslegra kringum-
stæðna samtíðarinnar, enda þótt þau séu um leið hluti hugmynda-