Skírnir - 01.01.1974, Page 175
SKÍRNIR FRÁ KAUPMANNAHÖFN TIL LOUVAIN 169
þess að lesendur hennar þá voru hagvanir í þessari tvískiptu ver-
öld sem Gröndal dregur upp í sögunni. Um leið skýrist hvers vegna
þessi saga hefur ekki átt upp á pallborðið hjá nútímafólki. Heimur
riddara- og ýkjusagna er því framandi. Tilvísanir eða samlíkingar
sóttar til gamalla sagna eru því lokuð bók og stjómmál nítjándu
aldar eru tuttugustu aldar fólki flestu heldur torskilin sagnfræði.
Síðustu útgefendur Heljarslóðarorrustu hafa að vísu áttað sig á
því að sagan skírskotaði ekki lengur til lesenda á tuttugustu öld.
Þess vegna hafa þeir birt viðamiklar skýringar við söguna, þar sem
baksvið verksins er rækilega lýst.3 En slík útgáfa missir marks.
Heljarslóðarorrusta er ekki lengur samtímasaga og ókleift er að
gera hana það aftur, hversu vel sem skýringar við hana eru úr
garði gerðar. En er hún þá ekki lengur fyndin?
Að mínu viti geta nútímalesendur því aðeins notið hennar til
fullnustu að þeir leggi það á sig að setja sig inn í hinn sérstæða
hugarheim eða öllu heldur hugaróra Gröndals, eins og þeir koma
skýrast fram í bréfum hans, þeim sem hann hefur án efa aldrei ætl-
að að birta svo og gamankvæðum hans, rímblöðunum. Einna
merkilegust til skilnings á þessu efni eru þau bréf sem hann skrifar
skömmu fyrir og eftir suðurförina og á leiðinni frá klaustrinu í
Kevelaer til Louvain, þar sem hann ritaði Heljarslóðarorrustu.4
Bréf það sem hér á eftir er prentað í fyrsta sinn, er athyglisverðast
fyrir þá sök að þar bólar fyrst á þeim stíltilþrifum og ýkjum sem
síðar verða aðall Heljarslóðarorrustu:5
Hér keyrir ógn af fólki framhjá á Sunnudögunum, konur og karlmenn,
kvennfólk Ijótt og fallegt, skeggjaðir og skegglausir menn og kallar og strákar
og stelpur og fliðrur og kellíngar og börn og stúlkur, kóngurinn og griðkur
og vinnukonur og ekkjur og hórkonur og heimasætur og nunnur og stofujóm-
frúr, en þó hef jeg engan séð sem jeg legg að jöfnu við ráðgjafa Rússakeisara,
sem keyrir á níu vögnum og liggur á þeim öllum eins og Gerýon jötun í hel-
víti sem lá á foldunni marflatur og náði yfir níu plóglönd eða dagsláttur - og
svo draga vagnana fimmhundruð hestar og fjórir offísérar sitja á hvurjum hesti
með tóbakspípur fyrir keyri, og þá skelfur jörð og fjöll, himininn dunar við
og sjórinn geysist upp á löndin.
Athyglisverðust eru þó nokkur brot úr bréfi hans til Eiríks Magn-
ússonar, þar sem hann fellir inn í ferðasögu sína frá Crefeld til
Louvain. Líta má eiginlega á þessi brot sem uppkastið að Heljar-