Skírnir - 01.01.1979, Qupperneq 135
SKÍRNIR
PERLAN OG BLÓMIÐ
133
MARÍA MAGDALENA gripur hönd hans. Þú elskaðir mig einu sinni,
Cajus. Nei, nei, eg vil ekki að þú farir. Veistu hvernig Decius elskar? hvernig
allir elska? í musterinu, sem eg reisti þér í hjarta mínu, ómaði einkennileg-
ur söngur. Eg var að eins þrettán ára, og í hjarta mínu ómaði einkennilegur
söngur. Eg elskaði þig, Cajus. Guð minn góður, hvað eg elskaði þig. Þú
girntist mig, þú elskaðir mig ekki og eg rak þig frá mér og hataði þig. —
Nei, nei, eg vil ekki að þú farir. — Þú rændir mig öllu, sem eg átti, og þú
gafst mér girndina, sem brann í æðum þínum. Horfðu á mig. Eg er María
Magdalena, vændiskonan, sem alþekt er í Jerúsalem, Rómverjaskækjan, sem
Gyðingarnir fyrirlíta. I hvert sinn er eg geng um göturnar á eg það á hættu
að þeir grýti mig. Jafnvel hér í húsi mínu er eg ekki óhult. Eg þakka þér
gjöfina, Cajus.
VARRO sest hjá henni og tekur utan um hana. Þú varst að eins þrettán
ára, en þú áttir eitthvað, sem unni mér ekki friðar. Það svaf í línunum, sem
féllu um Iíkama þinn eins og sindrandi sólargeislar. Það gerði mig öran af
undarlegum vonum. Og þegar þú varst hjá mér, gleymdi eg öllu öðru.
MARÍA MAGDALENA. Eg elskaði þig áðan. Eg elskaði þig áðan eins og
einu sinni. Þú kraupst á kné og kystir fætur mína, og í hjarta mínu ómaði
einkennilegur söngur.94
Þessi tvö stíleinkenni, skartdýrkun í hnignunarstíl og hvöss
kaldhæðni, leiða hugann að stíl og efnismeðferð Oscar Wildes í
leikriti hans um aðra fræga Biblíupersónu, Salomé, sem kom
út 1893.95 Vitað er að Oscar Wilde var meðal þeirra höfunda er
Jón Thoroddsen mat mest,96 og bein áhrif hans sjást í Flugum
sem brátt verður að vikið. Það virðist ákaflega líklegt að Salomé
hafi haft drjúg áhrif á stíl og anda Maríu Magdalenu, en slíkt er
torvelt að „sanna“.
Hugmyndaheimur Mariu Magdalenu og boðskapur verksins,
ef svo má að orði komast, er fólginn í þeim díónýsíska lífsfögnuði
og lífsnautnadýrkun sem leikritið tjáir. Vissulega bregður fyrir
tregafullum blæ hnignunar, og hömlulaus lífsnautn ber enn
heiti syndar. En niðurstaðan er lokaorð Brúðgumans:
Syndir þínar eru fyrirgefnar. því að þú elskaðir mikið.9i
VI
Árið 1919 gaf Sigurður Nordal út smásagnasafn sitt Fornarást-
ir sem lauk með hinni ljóðrænu sjálfsspeglun „Hel“.98 Við bók-
ina samdi Sigurður „Eftirmála“ þar sem hann segir: