Skírnir - 01.01.1979, Side 248
246 ÓLAFUR JÓNSSON SKIRNIR
sinni um cfnið, Kvennarannsóknir i bókmenntum í Skírni 1977, og drep-
ur fyrst á nokkrar algengar merkingar þess í umræðunni. Algengasta
merking orðsins er „bókmenntir um og eftir konur", en aðrar algeng-
ar merkingar þess, segir hún, eru „bókmenntir um konur, samdar af
konum og körlum"; „bókmenntir fyrir konur", einnig án tillits til kynferðis
höfundanna; og loks „bókmenntir eftir konur“, án tillits til efniviðar eða
tilætlaðra lesenda. Sjálf velur Helga síðasta kostinn:
Mér finnst rökréttast að skilgreina kvennabókmenntir sem bókmennt-
ir eftir konur án tillits til þess um hvað þær fjalla, þ. e. í andstöðu-
merkingu við bókmenntir samdar af karlmönnum. Þrengri skilgrein-
ingin, bókmenntir um og eftir konur, er óheppileg og villandi. Bæði
útilokar hún verk margra kvenrithöfunda sem ekki fjalla sérstaklega
um konur, s.s. Söru Lidman og Jakobínu Sigurðardóttur, og snið-
gengur það málefni sem er eitt hið mikilvægasta í þessu sambandi,
stöðu kvenrithöfunda í þjóðfélagi og bókmenntasögu.
Þessu er örðugt að samsinna, bágt að sjá að neinn ávinningur sé að upp-
skiptingu bókmenntanna, bókmenntasögu og bókmenntafræða eftir kynferði
rithöfunda — nema þá á grundvelli einhverskonar tvíhyggju í þeirri líkingu
sem fyrr var lýst, og það finnst mér satt að segja ótækilegur kostur. Ætli
við verðum ekki að gera ráð fyrir að við séum í öllum meginatriðum saman
um bókmenntirnar, karlar og konur, skáld og skáldkonur, eins og tunguna
sjálfa. Og þá er hugtakið kvennabókmenntir í merkingunni bókmenntir
„um og eftir“ konur prýðilega nothæft til að einangra og beina athyglinni
sérstaklega að því sem mestu skiptir í þessu viðfangi: nefnilega hvernig karl-
veldið í bókmenntum hafi með ýmsu móti afskipt, mismunað og lítilsvirt
margháttaða kvenlega reynslu sem viðfangsefni skáldskapar. Eftir sem áður
eru vitanlega allskonar ókjör sem kvenfólk hefur sætt í bókmenntum og
staða kvenna sem minnihlutahóps í bókmenntastofnun hvers tíma góð og
gild athugunarefni bæði í bókmenntasögu og þjóðarsögu.
Ég fæ ekki séð að neinskonar niðrunarblær loði við hugtakið í þessari
merkingu þess. Og í daglegu tali eigum við með orðinu „kvenna-bókmennt-
ir“ einatt við sögur, leikrit og Ijóð sem gagngert fjalla um mikið tískuefni
á undanförnum árum, stöðu, kjör og hagi kvenna í nútíðar-samfélagi, og
fela þá um leið oft í sér uppger við arfþegnar og viðteknar hugmyndir um
þessi efni. Aftur á móti er glöggur niðrunarkeimur að annarri algengri
merkingu þess í daglegri notkun, þriðju merkingu hugtaksins sem Helga
Kress telur, „bókmenntir fyrir konur" — sem samsetningar eins og „kvenna-
blöð“, „kvennasögur", „kerlingabækur" osfrv. eru til marks um. En einnig
þessi notkun orðsins höfðar til algengra bókmennta, þeirrar alkunnu stað-
reyndar að mikill hluti iðnvæddrar afþreyingar í blöðum og bókutn, eins og
líka bíó og sjónvarpinu, er gagngert saminn handa og seldur konum.
Hvernig sem hugtakið er skilgreint er hætt við að í verki reynist einatt
óglögg mörk á milli „kvenna-bókmennta" og annarra, og er það sannarlega