Skírnir - 01.01.1986, Page 34
30
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
skynjun minni, koma nýjar mótsagnir í ljós. Lýsing hins einstaka
hlutar felst í því að tiltaka ýmsa almenna eiginleika sem hann er
samansettur af og kunna að birtast mér sem skynjanir mismun-
andi skilningarvita sem vitundin tengir saman í eitt. Þannig birtist
til að mynda saltkornið í senn sem hvítleiki fyrir augað, selta fyrir
tunguna og teningslögun fyrir fingurinn, en allir þessir eiginleikar
mætast í þeim eina punkti sem ég nefni saltkornið sjálft og er ekki
margt heldur eitt, eitthvað sem ég tel ekki sjálft vera eiginleika
heldur eitthvað sem ber uppi þessa eiginleika en hverfur sem slíkt
og nefnist því undirstaða eða substantia á máli heimspekinga.
Hluturinn er því þeim mótsögnum haldinn að hann leysist upp í
marga almenna eiginleika, en það sem heldur þeim saman og ger-
ir hann að einum hlut hverfur sjálft sjónum sem slíkt. Þegar ég vil
einkenna eitthvað, geri ég það ekki öðruvísi en með því að tiltaka
eiginleika sem það á sameiginlega með öðru eða neita því um
aðra sem eitthvað annað hefur en það ekki, og ég virðist þá miklu
fremur vera að tengja þetta tiltekna við allt annað en að einkenna
það.
Raunar komumst við harla skammt, ef við viljum ákvarða eðli
veruleikans á þennan hátt, og þá mætti næst reyna að skilgreina
eðli hans með óákveðnara orði eða sem afl eða kraft sem býr og
birtist í hlutunum, og værum við þar með komnir á stig þess sem
Hegel kallar skilning (Verstand). Nú hefur skilningurinn reyndar
þegar, eins og nafn hans bendir til að hann geri, skilið milli aflsins
sjálfs og þess að aflið birtist, en í annan stað má segja að aflið sé
eitt og hið sama og sé ekki afl nema að svo miklu leyti sem það
birtist sem afl. En til að aflið sem býr í hlutunum verði að afli sem
birtist, getur komið til nýtt afl, líkt og eldfimi hlutar birtist, þegar
kveikt er í honum, og þannig má skoða veruleikann sem leik
margra afla, en þegar til lengdar lætur hlýtur skilningurinn, sem
hefur ekki einungis tilhneigingu til að skilja í sundur heldur líka
að sameina, að reyna að fella allan þennan leik kraftanna saman
í eitt eða í almennt náttúrulögmál. En hér er enn sem veruleikinn
greinist í tvær andstæður, annars vegar er yfirskilvitlegur, kyrr-
stæður og óbreytanlegur heimur lögmáls og hins vegar síbreyti-
legur heimur hinna einstöku fyrirbæra sem lögmálið á að útskýra