Skírnir - 01.04.1993, Page 47
SKÍRNIR
VIÐ RÆTUR MANNLEGS SIÐFERÐIS
41
rænna samfélaga, þar sem öllum hefur verið gert að lúta í sama
gras í nafni jafnaðar og lýðræðis. Og til að fullkomna niðurlæg-
inguna eru dyggðir hinna minnimáttar - lítillæti, auðmýkt og
hógværð - hafnar til vegs og virðingar, en dygðum hins sterka,
stórmennsku, stolti og stærilæti, vísað í skammarkrók lastanna.13
Með þessu móti ná þrælarnir fram hefndum á höfðingjunum,
sýna þeim í tvo heimana, þar sem handanheimurinn er hinn sanni
veruleiki. Einungis í skjóli hans getur hinn veiklundaði þræll af-
borið jarðneska tilvist sína.
Þrælasiðurinn getur þannig af sér siðfræði sem afmarkað og
almennt kerfi sem beitt er í því skyni að fordæma eða réttlæta at-
hafnir. Þetta er augljósast í lögmálshyggju gyðingdómsins þar
sem siðferði er skilið sem ytra reglukerfi, andstætt grískri sið-
fræði sem lítur fremur á siðferðið sem innri eiginleika einstak-
linga, dygðir hans og lesti.14 Þótt Nietzsche sé sjálfur dygðapost-
uli þá telur hann að grísk dygðasiðfræði hafi ekki síður en kristin
kenning stuðlað að sigri þrælasiðarins, enda kallar hann kristnina
í formála Handan góðs og ills „platonisma fyrir „fólkið““.15 Með
frummyndakenningu sinni lagði Platon glæsilegan grunn að hinni
tveggja heima sýn og Sókrates er einn helzti hugmyndasmiður
þrælasiðferðis. „Það sem fyrst verður að sanna er lítils virði", seg-
ir Nietzsche og telur rökræðusiði Sókratesar ekki við hæfi heldra
fólks (GD Sókratesarvandinn 5). Það kemur vel fram í samræð-
um Platons hvernig þeir Sókrates eru að umbreyta siðferðilegum
hugsunarhætti, ekki sízt með því að staðhæfa að áðurnefndur
agaþós geti ekki borið þá nafnbót nema hann sé réttsýnn. Það er
ekki nóg að maður beri augljós skilmerki höfðingjans - sé ríkur,
hraustur og voldugur - hann verður að lúta hinum almenna mæli-
13 Með mismunandi stafsetningu í þessari málsgrein og víðar vil ég vekja athygli
á því að dyggð er samstofna við dyggur (=trúr, hlýðinn) sem fer betur með
þrælasiðferðinu heldur en dygð sem er dregið af dugur og hæfir því máttar-
gæðum höfðingjans. Eyjólfur Kjalar Emilsson benti mér á þetta atriði.
14 Sbr. Þorstein Gylfason, Siðfrœðispjall fjölrit (Reykjavík: Háskóli Islands
1981), s. 6.
15 Rétt er að taka fram að viðhorf Nietzsches bæði til kristni og grískrar heim-
speki eru margbrotin og fjarri því að hann afgreiði þau á jafn einfaldan hátt og
hér er gefið í skyn.