Skírnir - 01.04.1993, Page 99
SKlRNIR
í FUGLABJARGISKÁLDSÖGUNNAR
93
(303), er mikilvægur undirtexti í verkinu og sýnir hversu alvar-
lega þenkjandi Laxness er um þetta þema, þótt það tengist líka
spaugilegri hliðum skáldsögunnar.
Ummyndunarljóðið fjallar um það hvernig ástin getur valdið
„hamskiptum" - einstaklingur umbreytist í annan - og það teng-
ist í sögunni þeim „verubrigðum", sem svo eru nefnd, er Umbi
verður „vottur að“ (242). Lax er fluttur ofan úr Jökli og „breyt-
ist“ í Uu. Ekki er fráleitt að segja að jökullinn hafi ummyndast í
Uu; jökullinn býr að því er virðist yfir óþrjótandi myndbreyting-
arorku. I skýrslu sinni veltir Umbi því fyrir sér hvort „huldu-
hrúturinn sem Hnallþóra sá hafi ekki verið jökullinn?“ (193).
Jökulathuganir Umba eru ekki dramatískar og lítt tengdar hefð-
bundum lýsingum á íslensku landslagi, en þær sýna vel hversu
áleitinn jökullinn er. „Það er einsog þetta fjall hafi aungva skoð-
un. Það heldur aungvu fram. Það vill aungvu troða uppá neinn.“
Það er „altogekkert“. En jökullinn forklárast „á vissum tímum
dags í sérstakri birtu og stendur í gullbjarma með stóru geisla-
magni og alt verður auvirðilegt nema hann.“ Hinsvegar: „Að
nóttu þegar sól er affjalla verður jökullinn að kyrlátri skugga-
mynd sem hvílir í sjálfri sér og andar á menn og skepnur orðinu
aldrei sem eftilvill merkir einlægt. Kom dauðans blær“ (192-193).
Jökullinn ljær þessum söguheimi fyllingu og er þó fullur
óvissu og mótsagna; eyða í merkingarheimi sögunnar. I frum-
spekilegum skilningi er hann kannski hin hvíta eyða, blindandi
og lýsandi í senn, sem dauðinn myndar í lífinu, en hann er líka í
sívirkum tengslum við „holdlegt“ umhverfi sitt, er spegill þess og
merkingarmiðstöð, eins ég nefndi í orðum mínum um „samband-
ið“ í sögunni. Hann er meðal annars ígildi þeirra lífrænu en
stundum ógnandi tengsla okkar við náttúruna sem tungumálið
nær aldrei að skilgreina röklega.
Mynd jökulsins er hluti af allri myndlist skáldsögunnar, sem
er um sumt í mergjaðri mótsögn við þá íslensku voraldar veröld
sem Halldór Laxness og ótal skáld önnur hafa málað í verkum
sínum. I tilvitnun hér að framan sést hvernig Umbi fjallar um
jökulinn sem „skuggamynd", en það orð kemur víðar fyrir í sög-
unni (sjá bls. 245). Og þegar allir skuggar sögunnar bætast við
þokuna sem sveimar í henni, þá freistast maður til að gleyma að