Skírnir - 01.04.1993, Page 268
262
EYSTEINN ÞORVALDSSON
SKÍRNIR
í flugstjórnarklefanum
áður en fjallstindurinn
birtist
Náttúruskynjun í ljóðum Gyrðis er sérkennileg. Það er fjarri honum
að yrkja um fegurð náttúrunnar eða stórfengleik hennar í augum áhorf-
anda. Náttúruumhverfið er gjarnan eyðilegt eða þungbúið í ljóðum hans,
og þótt stundum sé stjörnubjart, má oftar sjá stjarnlausan himin eða blý-
stjörnur yfir, birtan er dapurleg og oft ríkir myrkur og nótt, regnhiminn
og leikið á sortafiðlur. En skyndilega færist náttúrusviðið í aukana með
tilvist dýra eða furðufyrirbæra: “[...] skipið siglir / áfram í sólinni og /
inn í tunglið í nótt // En sekkur þar / í þurru höfin" (,,Logn“). Stundum
er óvenjulegt útsýni í náttúrunni, hún er séð neðanfrá eða innanfrá. Það
er skyggnst um gömul myrkur langt niðri í moldinni, sbr. tilvitnun í
„Stefnu“ hér að framan. Djúpt í hafi „er maður af landi / og dreymir þar
/ bládimmar stjörnur / og sól“ (,,Beðið“). Töfragripur af svipuðum slóð-
um er smáljóðið „Uppspretta“:
Á myrkurtúninu er ljós
grátt Ijós
og berst neðan úr moldinni,
sytrar meðfram stráum upp
í næturhimin
Hið óþrjótanlega yrkisefni skálda, ástin í ýmsum myndum, er ekki
fyrirferðarmikil í ljóðum Gyrðis. Hann er varfærinn í þessu efni en ást-
arhugrenningar gætu vel falist í sumum ljóðum hans sem nefna slík til-
finningamál ekki á nafn. Hér er þó eitt sem heitir beinlínis „Ástarljóð“.
Það er einkennilega kaldranalegt á yfirborðinu. „Viltu bíða á meðan /
ástin mín“ er ávarp í lok ljóðs. Hugnæmt ávarp en biðina hyggst mæl-
andinn nota til að búa sig undir að stökkva fram af klettum og ætlun
hans er að draga ástina sína með sér í fallinu. Sú fyrirætlan og óvæntar
myndir ljóðsins hljóta að vekja ýmsan grun hjá lesendum um tilfinning-
arnar sem að baki búa.
Ljóðstíll Gyrðis hefur að sumu leyti breyst frá því sem upphaflega
var. Frá og með ljóðabókinni Tveimur tunglum (1989) eru ljóð hans
mun einfaldari að myndum og framsetningu allri en í fyrri bókunum. I
þeim voru gjarnan torræðar myndir með geigvænlegum grun um feigð
og tortímingu. Enn yrkir Gyrðir að vísu ljóð þar sem friðsælar hvers-
dagsmyndir snúast í furður og ógnir, en það er sjaldgæfara nú; hugblær-
inn er allur mildari og daglegt líf friðsælla en áður var.
Orðfærið hefur hinsvegar lítið breyst. Það er slétt og fellt, engin við-
hafnarorð og framsetningin prósakennd, jafnvel svo að stundum er teflt
á tæpasta vað um ljóðræna þörf. Frameftir sumum ljóðum virðist stefna í