Vestfirska fréttablaðið


Vestfirska fréttablaðið - 07.08.1992, Blaðsíða 3

Vestfirska fréttablaðið - 07.08.1992, Blaðsíða 3
VESTFIRSKA FRÉTTABLAÐIÐ L Föstudagur 7. ágúst 1992 Hafliði Magnússon, listamaður á Bíldudal, í vidtali við Gísla Hjartarson: „Þetta eru nú einu sinni mín áhugamál44 Hafliða Magnússyni á Bfldudal er margt til lista lagt. Hann skrifar skáldsögur og söngleiki, yrkir gamanvísur, málar og teiknar, býr til leik- myndir. Líka hefur Hafliði unnið við kvikmyndagerð og skrifað handrit, leikstýrt og framleitt kvikmynd sem til er á myndbandi á myndbanda- leigum. Hann átti heima í Hergilsey á Breiðafirði til sex ára aldurs og síðan víða um Arnarfjörð. Seinna þvældist hann um heiminn á togurum og fragtskipi. Nú hefur hann gaman af því að ferðast sem venjulegur ferða- maður. Hafliði sá fyrst hross og hunda þegar hann var átta ára gamall. Hann hefur gott auga fyrir skoplegum atvikum sem gerast í kringum hann og flestir aðrir taka ekki eftir að séu nokkuð skopleg. Ritverk Hafliða eru mörg. Bækurnar: Síðasti rauðskinninn, Bíldudals grænar baunir, Syndugir svaIIarar,Togarasaga með tilbrigðum ogArnar- fjörður. Söngleikirnir: Sabína, sem Margrét Óskarsdóttir leikstýrði hjá Litla leikklúbbnum og Saga Jónsdóttir hjá Leikfélagi Akureyrar, Stína Vóler sem Leikfélagið Baldur á Bfldudal setti upp og kom einnig í Ríkisútvarpinu, Sólarlandaferðin sem sett var upp af Lf. Baldri, Fjársjóð- ur Franklínsgreifa, settur upp af Lf. Baldri í leikstjórn Odds Björnssonar, Gísli Súrsson, settur upp af Menntaskólanum á Isafirði í leikstjórn Mar- grétar Óskarsdóttur, og einn ósýndur söngleikur sem nefnist Irja, klukk- an er fjögur! Auk þess hefur Hafliði skrifað fjölda smásagna í blöð og tímarit, þar af er ein verðlaunasaga, og texta á hljómplötur. Blaðamaður Vestfirska heimsótti Hafliða og átti með honum góðan dag yfir kaffibolla. Var margt rætt og gefst lesendum kostur á að kynnast manninum á bak við listamanninn Hafliða Magnússon í viðtali hér á eftir. Sá ekki bíl fyrr en ég var átta ára gamall. Hafliði við eitt af málverkum sínum. Ég er fæddur í Hergilsey á Breiðafirði 16. júlí 1935. Faðir minn var Magnús Einarsson frá Brekkuvöllum á Barða- strönd og móðir mín var Bent- ína Jónsdóttir frá Hvítarhlíð í Bitrufirði á Ströndum. Þau voru ábúendur í Her- gilsey í þríbýli á móti Guð- mundi á Brjánslæk og Þórði Benjamínssyni. Við bjuggum í svokölluðum Efstabæ, sem stóð lengst húsa í eynni og er nú nýlega fokinn. Þarna vor- um við þar til ég varð sex ára og man nú æði vel eftir stað- háttum. Ég kom í eyna 28 árum síðar með föður mínum og bróður og þá varð ég undr- andi á því hve eyjan er lítil. Mér fannst hún svo stór á sín- um tíma. Við vorum að fara á fuglaveiðar út í eyjar og stöldruðum aðeins við í Her- gilsey. Ég hljóp um alla eyna á örskótshraða. Einn sunnu- dag þegar ég var lítill fór systir mín með mér suður á ey og manni fannst stórkostlegt að hafa komist svona langt út í óbyggðirnar. Svo er þetta bara örstutt fyrir ofan bæinn. Mað- ur man þetta ekki síður fyrir það að í mínum uppvexti klippist svo greinilega á þegar við flytjum upp á land. Fram eftir öllum árum var sffellt verið að tala um veruna í Her- gilsey á mínu heimili. Þarna var lifað eins og í forneskju. Það var bara lifað á landsins gagni og gæðum, veiddur selur og hann súrsaður og allar birgðir not- aðar á landnámsvísu að heita mátti. Við gengum á skinn- skóm þannig að maður stend- ur í rauninni beggja megin í tilverunni hvað þetta snertir, bæði í gamla og nýja tíma- num. Ég man eftir ungum manni sem ég kynntist sem að öfundaði mig óskaplega yfir að hafa upplifað þetta, allt að því forneskju. Bíl sá ég ekki fyrr en átta ára gamall og ekki hund fyrr heldur, það máttu ekki vera hundar í eyjunum út af varpinu. Maður hafði ekk- ertséð nemaféogfugla. Hross sá ég ekki fyrr en við fluttumst að Steinanesi í Amarfirði. Við vorum dagspart að skoða skít- inn úr þeim því okkur þóttu svo merkilegar kúlurnar. Allt varð nýtt fyrir manni um sjö ára aldur því þá var maður bókstaflega að koma inn í ver- öldina. Þegar við fluttum að Steina- nesi, þá tók faðir minn með sér allt féð úr Hergilsey. Það hrundi niður úr einhverri óár- an því það þoldi ekki landbeit- ina. Við bjuggum bara eitt ái þar og þá losnaði ábúð í Otra- dal og við fluttum þangað. Þar vorum við í eitt ár. í Otradal var kúabú og seld mjólk til Bíldudals. Mjólkinni var skammtað í merkta mjólkur- brúsa sem hver kaupandi átti og það var hlutverk okkar bræðranna að fara með mjólk- ina úteftir. Óskar bróðir er tveimur árum eldri en ég. Við höfðum hest sem Skussi hét, óskaplega gamall og rólegur, og á honum reiddum við mjólkina og dreifðum henni í húsin á Bíldudal og tókum tóma brúsa í staðinn. Þetta er um 5 km leið eða um klukku- stundar gangur. Annars er mér ekkert sérstakt minnis- stætt úr Otradal þegar ég var krakki. SAMDI VERÐLAUNA- SÖGU Á TRAKTORNUM Við fluttum svo til Bíldudals í lítið hús sem nú er búið að rífa og stóð í ytri kanti þorpsins. Þar vorum við til 1947. Þá tók faðir minn Hóls- búið sem var þá aðalmjólkur- búið fyrir Bíldudal. Foreldrar mínur voru mikið fyrir búskap. Þau voru ekta bænda- fólk, eiginlegt aldamótafólk. Mér aftur á móti leiddist bú- skapur óskaplega og kvaldist við mjaltirnar. Allt var mjólk- að með höndum og mikil vinna var í kringum kýrnar og allt búið. Það komu ekki vélar fyrr en á seinustu árunum sem við vorum þarna. Sem ung- lingur á Hólsbúinu átti ég fáar frístundir. Ég hafði alltaf haft áhuga fyrir listum og skriftum og þarna byrjaði ég að grufla í því. Mér dettur í hug að ég las eftir Guðmund Böðvars- son skáld, að hann hefði sagt að skáldskapargáfan hefði horfið úr íslensku bændafólki við komu traktorsins. Það var nú alveg öfugt hjá mér. Þegar við fengum traktor gat ég setið á honum og þar fyrst datt mér eitthvað í hug. Einn daginn sá ég að það var verðlaunasam- keppni í blaði um hver gæti gert bestu söguna. Ég var að slá með traktornum og var kominn með feikna glæpasögu að kvöldi. Ég skrifaði hana niður og sendi hana og náði fyrstu verðlaunum þannig að ég hrakti nú þessa kenningu. Blaðið hét Örninn og var gefið út af prenturum í prentsmiðj- unni Rún. Það komu aldrei út nema þrjú eða fjögur tölu- blöð, en þetta var ansi merki- legt blað. Verðlaunin voru rit- safn Jóns Trausta í skinnbandi og á ég þau enn og þykir mikill gripur. ÞURFTIAÐ FÁ SÉR ÞRJÁ LÉTTA TIL AÐ GETA LESIÐ TOGARASÖGUNA Við vorum á Hóli í nokkur ár. Ég keypti mér harmonikku og gerðist jassspilari á böllum fljótlega. Ég var á kafi í því og las einhver ósköp á þessum árum um alla hluti. Svo allt í einu komu nokkrir náungar sem voru að hóa saman strák- um á togara á Patreksfirði. Ég taldi mig nú ekki líklegastan í það því ég var að drepast í sjóveiki þegar ég var strákur út í bátkænum. Ég lét mig samt hafa það. Ég veit ekki hvort það var mín ógæfa en sjóveikin fór af á fyrsta sól- arhring á togaranum. Ég varð svo montinn af því að ég ílent- ist í þessu nokkuð lengi, ella hefði ég búið í landi og kannski tekið eitthvað annað fyrir. Ég var smátíma á Pat- reksfjarðartogaranum og fór svo suður til Reykjavíkur og var þar á togurum töluvert lengi og seinna meir var ég á flutningaskipinu Kötlu. Þegar fór að lfða á þessa togaratíð þá fór að ganga óskaplega illa að manna þessi skip. Launin höfðu orðið á eft- ir og þarna var alls skonar lausingjalýður. Ég var orðinn yfirmaður síðustu árin, báts- maður og annar stýrimaður þó ég væri ekki með skólann. Það voru skrapaðar krár til að fá mannskap og menn sem höfðu litlar sektir leystir úr steininum. Þetta var, sem maður gæti nú sagt, svolítið furðulegur lýður en ansi merkilegur hópur svona. En það var orðið ansi þreytandi að standa í þessu. Á einu skipi sem ég var á voru menn bók- staflega veiddir um borð með brennivíni, og svo var látið reka í hafi meðan menn drukku. Upp úr þessu skrifaði ég bók sem ég kallaði Togara- sögu með tilbrigðum. í henni eru reyndar teknir saman nokkuð margir túrar og gerðir að einum. En þetta er allt sannleikanum samkvæmt. Þetta þótti all skuggaleg frásögn. Ég fékk áhuga á því að ferð- ast um útlönd á seinni árum, í öðruvísi ferðir en þegar maður sigldi á togurum. Ég kynntist frænku minni sem bjó í New York og var gift verkfræðingi sem sá um hafnarmannvirki borgarinnar. Ég hugsaði með mér að ansi væri nú gott að ná sér í farmiða til New York og fá að dvelja hjá þeim um tíma. Best væri að heilla frænkuna upp úr skónum með því að senda henni Togarasöguna. Ég fékk þetta voða skammar- bréf til baka um að ég dundaði við að níða niður íslenska sjómenn. Raunar var sagan hluti af ævisögu mín sjálfs. Ég fór aldrei til New York. Ég sendi bókina íslenskri stúlku sem ég kynntist í Búlgaríu og er búsett á Akureyri. Hún sendi mér bréf til baka og sagði að hún yrði að vera búin að fá sér þrjá létta áður en hún læsi þessa bók. Það var nú síst að konur skildu þetta en ég veit að sjómenn hafa haft af- skaplega gaman af þessu. Nú er töluvert hringt til mín og spurt um bókina en hún er ófáanleg. KOPARÞJÓFNAÐUR Á GUÐMUNDI PÉTURS Ég var á þessum skipum í allmörg ár og það var náttúr- lega ýmislegt sem upp kom. Ýmsu er sagt frá í Togarasög- unni. Þó má koma með eina sögu sem ég steinþagði yfir þar, því ég skammaðist mín svo mikið fyrir ferðalagið. Þá hitti ég Einar vin minn alheims en hann var á Guðmundi Pét- urs í Bolungarvík. Það vantaði bátsmann á skipið og það varð úr að ég slengdi mér þangað. Við veiddum í siglingar að öllu leyti. Einhverra hluta vegna var ekki farið strax út, og skip- ið var í landi einhverja daga eftir að ég kom. Við unnum við að lagfæra veiðarfæri. Eitt kvöldið lá ég í koju við að lesa sögubók þegar Einar alheims og strákur úr Bolungarvík koma um borð. Þá var safnað kopar til þess að selja úti. Strákurinn sagðist vita um feiknamikla rúllu með raf- magnsvír úr blýi og kopar á. Þeir vissu ekki til að vírinn væri til nokkurra nota. Það var því ákveðið að fara og hirða af rúllunni. Þeir báðu mig að fara með en það var ekki fyrir frómleika að ég fór ekki með þeim, heldur var ég svo spenntur í sögunni og nennti ómögulega. Svo li'ður og bíður. Um miðja nótt er hóað við skipshlið og ég beðinn um að koma upp til aðstoðar. Þá voru þeir komnir til baka á skektu með allan vírinn af rúll- unni. Vírinn var allur í einni stórri bendu ofan á skektunni. Þeir skipuðu mér svo að hjálpa sér við að hala vírinn ofan í lest og var það gert. Síðan var farið á veiðar og vímum kom- ið fyrir út f stíu. STUNGIÐ AF MEÐ EINARI ALHEIMS í ÞÝSKAL ANDI í lok túrsins var komið inn til þess að taka kola af bátum. Þá kemur lögreglan um borð og heimtar rannsókn, því það sé búið að stela splunkunýjum kapli sem átti að fara í endur- nýjun á raflögnum í Bolungar- vík. Þetta var óskaplega dýr kapall. Skipstjórinn bannaði það því ef skipið yrði stöðvað þá missti hann af söludegi úti í Þýskalandi og þetta yrði að bíða þar til við kæmum heim aftur. í Þýskalandi segir Einar al- heims að ekkert þýði fyrir sig að fara heim aftur, því hann

x

Vestfirska fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirska fréttablaðið
https://timarit.is/publication/1149

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.