Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Blaðsíða 59
hluta til harmi og örvæntingu, þó að upphaf þeirra sé jafnan þannig. í nið-
urlagi þeirra birtist hins vegar yflrleitt fullvissa um bænheyrslu sem oft
endar í hreinni lofgjörð.
Sálmur 13 með sinni síendurteknu spurningu, „Hversu lengi?“, er
gjarnan tekinn sem dæmi í kennslubókum um harmasálmana. Hann þykir að
formi, stíl og innihaldi sérlega dæmigerður fyrir þennan stærsta flokk
sálmanna, samkvæmt viðteknu greiningakerfi sálmarannsókna gamlatesta-
mentisfræða.
Hversu lengi, Drottinn! Ætlar þú að gleyma mér um eilífð?
Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
Hversu lengi á ég að bera sút í sál,
harm í hjarta dag frá degi?
Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig? (v. 3-4).
Þess má geta að bandaríski presturinn og blökkumannaleiðtoginn Martin
Luther King (1929-1968) notaði þennan sálm mjög mikið enda þótti honum
hægt ganga í réttindabaráttu blökkumanna.9
Hversu lengi, Drottinn!
Oft verður ekki ráðið af orðalagi harmasálmanna hvert er hið eiginlega
tilefni harmsins. Innihaldið og orðalagið er almennara en svo.
í ýmsum öðrum tilfellum er tilefnið hins vegar alveg ljóst. Það á til
dæmis við hinn þekkta 137. sálm Saltarans:
„Við Babýlónsfljót þar sátum vér og grétum er vér minntumst Síonar.“
Þarna er það söknuðurinn eftir Síon og heimþrá útlaganna sem er tilefni
harmsins. Þessi sálmur veitir okkur innsýn í líf hinna herleiddu Gyðinga í
Babýlon á síðari hluta 6. aldar f. Kr. Sálmurinn sýnir okkur hvernig hinir
útlægu Gyðingar hafa komið saman til helgihalds undir berum himni við
einhvern árbakkann í Babýlon, komið þar saman til að gráta örlög Jerú-
salem, sinnar helgu borgar, og musterisins sem nú var fallið. Þeir hafa mátt
þola háð kúgara sinna en heitið því að gleyma aldrei Jerúsalem. Fyrr skyldi
hönd þeirra visna og tungan loða þeim við góm.
Þessi sálmur hefur löngum verið mikið notaður af þeim sem í útlegð
dveljast og menn hafa ort út af honum við slíkar aðstæður. Það átti t.d.
bæði við um brottflutta íslendinga í Vesturheimi10 og einnig höfum við
9 McCann, J. Clinton, Jr. and Howell, James C. 2001. s. 23.
10 Ég hef birt grein um 137. sálm þar sem þessi túlkun hans er meginatriði. Sjá Gunnlaugur A. Jónsson
2005, s. 83-97.
57