Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 4
3
Ritið 2/2014, bls. 3–6
Skjámenning, tískumenning,
dægurmenning
Þegar Halldór Laxness rölti kvöld eitt um erlenda stórborg gekk hann fram
á tveggja mannhæða hátt auglýsingaskilti fyrir sáputegund. Hann staldraði
við vegna þess að fyrirsætan, göfugleg stúlka, „sem horfir dreymandi út í blá-
inn“ minnti hann á „auglýsingamyndir fornkirkjunnar af sjálfri móður guðs“.1
Hreinleikahugtakið tengir á milli og segir Halldór auglýsingar sem skarta
„palm-olive“–stúlkunni og Maríumyndir miðalda vera um margt hliðstæðar.
Þetta er glögg athugasemd hjá Halldóri. Í greiningu hans felst meðvitund um
að dýrkunargildi hinnar trúarlegu heimsmyndar sé ekki horfið í nútímanum
heldur hafi það fært sig um set og gegni nú mikilvægu hlutverki sem aflstöð
neyslusamfélagsins, hvort heldur í formi stjörnuímynda eða vörumerkja.
Á nýju árþúsundi hefur ekkert vörumerki fest sig í sessi með jafnafdrátt-
arlausum hætti og Apple, en tölvufyrirtækið hefur mótað sér ímynd sem er
bókstaflega drekkhlaðin jákvæðum merkingaraukum. Ekki sakar heldur að
saga fyrirtækisins er dramatísk, nokkuð sem tengist öðrum stofnanda þess,
„snillingnum“ Steve Jobs, sem var „hrakinn“ út úr fyrirtækinu af skilnings-
sljórri og vanþakklátri stjórn eftir að hafa lagt því til sögulegt hugvit sitt og allt
það sem tryggja myndi velgengni fyrirtækisins til lengri tíma.2
Eyðimerkurgöngu hins misskilda sjáanda lauk þegar fyrirtækið sem hann
stofnaði, nú á barmi gjaldþrots, sá að sér og kallaði eftir liðsinni hans og end-
urkomu, bón sem hann varð við. Með undraverðum hraða snerist gæfa Apple
við, Jobs leiddi fyrirtækið til öndvegis og áður en yfir lauk var Apple verðmæt-
asta fyrirtæki veraldar. Hverjar voru launakröfur Jobs þegar hann sneri aftur?
Einn dalur á ári.3
Goðsögunni um Steve Jobs svipar til hlutverksins sem frelsarinn mikli
1 Halldór Laxness, „Myndir“, Alþýðubókin, Reykjavík: Jafnaðarmannafélag Íslands,
1929, bls. 177.
2 Jeffrey S. Young og William L. Simon, iCon. Steve Jobs. The Greatest Second Act in
the History of Business, Hoboken: John Wiley and Sons, 2005, bls. 99–125.
3 Hér eru dregin saman nokkur algeng minni í dýrlingasögunni af Steve Jobs (og
líkt og vaninn er í slíkum sögum er hvergi minnst á Steve Wozniak, hinn stofnanda
Apple).