Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 270
269
Ragnhildur hólmgeirsdóttir
Sigur eðlishyggjunnar?
Ástarsaga Íslendinga að fornu. Um 870–1300 eftir Gunnar Karlsson.
Reykjavík: Mál og mernning, 2013.
Ástarsaga Íslendinga að fornu eftir sagnfræðinginn Gunnar Karlsson kom
út 2013, en hann hefur til að mynda fjallað áður um efnið í greininni
„Tilfinningaréttur“ sem birtist í Sögu árið 2009.1 Viðfangsefni bókarinnar
er kynferðisleg ást á Íslandi á tímabilinu 870–1300, hvaða tilfinningar fólk
bar í brjósti og hversu auðvelt það var að lifa í samræmi við þær tilfinningar.
Í formála verksins rekur Gunnar langvarandi áhuga sinn á viðfangsefninu,
en hann hefur m.a. kennt tvö námskeið á framhaldsstigi í Háskóla Íslands
um efnið, og varið einu misseri í rannsóknir í London árið 2005. Það má
því segja að bókin sé afrakstur áralangra rannsókna, en Gunnar lítur á
verkið sem „yfirlitsrit [...] þegar frumrannsóknir eru komnar skammt á
veg“, og vonast til að bókin hvetji til frekari rannsókna og styðji við þær.2
Í sjálfu sér er óvenjulegt að skrifa yfirlitsrit þegar frumrannsóknir skort-
ir, en ein af ástæðum Gunnars fyrir að taka upp hugtakið tilfinningaréttur
árið 2009 var sú að með því móti yrði „viðráðanlegra að fara umsvifalaust
að punda einhverju efni inn í yfirlitsrit og námsefni fyrir skóla.“3 Að vísu
virðist höfundi hafa snúist hugur um gagnsemi hugtaksins, og það kemur
a.m.k. ekki fram í atriðisorðaskrá Ástarsögu Íslendinga að fornu. Fyrirbærið
tilfinningaréttur leynist þó á milli línanna í bókinni þar sem reynt er að
rannsaka í senn sögu ástarinnar og sögu lagasetninga.
Það má þó deila um hvort þessi samhæfing rannsóknarefna hafi tek-
ist, því stundum virðast rannsóknarspurningar hreinlega stangast á í stað
þess að vinna saman. Þetta sést til að mynda í formála bókarinnar. Á fyrstu
1 Gunnar Karlsson, „Tilfinningaréttur. Tilraun um nýtt sagnfræðilegt hugtak“, Saga
1/2009, bls. 75–101.
2 Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga að fornu. Um 870–1300, Reykjavík: Mál og
menning, 2013, bls. 12.
3 Gunnar Karlsson, „Tilfinningaréttur“, bls. 76.
Ritið 3/2014, bls. 269–282
Ritdómur