Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Page 44
42
MÚLAÞING
Bréf Páls Melsteds sýslumanns til Bjarna Thorarensens amtmanns
og uppdráttur Péturs af leiðinni sem hann og Jón Ingimundarson fóru
er hið merkasta framlag í könnunarsögu landsins. Vill höfundur þessa
þáttar hér með koma á framfæri þökkum til Einars Braga rithöfundar
í Reykjavík fyrir að hafa útvegað þessar heimildir. Margar upplýsingar
koma fram við lestur bréfsins og athugun á kortinu en um leið vakna
ýmsar spurningar, sem fróðlegt væri að leita svara við. Fyrst skal bent
á athugasemd Páls Melsteds um að kortið sé teiknað án mælikvarða
og af manni sem skortir kunnáttu í kortateikningu og því sé þess ei
að vænta að vegalengdir og afstaða milli örnefna sé rétt, en þó muni
kortið koma að gagni til leiðarvísis því afstaða fjalla, vatna og merktra
staða muni þó vera nokkurn veginn rétt. Þessar athugasemdir Páls eiga
fullan rétt á sér. Skulum við nú líta á uppdrátt Péturs og bera hann
saman við Miðausturlandskort (blað 8) og Miðhálendiskort (blað 5)
frá Landmælingum íslands. Kverká, Kreppa, Jökulsá á Fjöllum og
Skjálfandafljót eru í meginatriðum réttar. Kverkfjöll eru þá rétt en
nöfnin vantar á báða stóru skriðjöklana, Brúarjökul og Dyngjujökul
það stendur aðeins Vatna Jökull á þeim báðum. Fjallgarður inn af
Trölladyngju er greinilega Kverkfjallaraninn en Trölladyngja á upp-
drættinum virðist vera Vaðalda. Dyngjufjöll eru of norðarlega, þau
eiga að vera fyrir suðvestan Herðubreið og lengra frá henni. Urðarháls
á uppdrættinum er þar sem nú heitir Dyngjuháls en sá Urðarháls, sem
nú heitir svo og er með hinum feiknlega sprengigíg er ekki sýndur á
uppdrættinum. Mesta furðu vekur þó að Trölladyngja, sem nú heitir
svo, er ekki sýnd en Urðarháls og varða eru nokkurn veginn þar sem
hún ætti að vera. Fjallshnúkur er Kistufell en Skarð í Jökulinn er
Vonarskarð. Jökulhornið er Tungnafellsjökull en Arnarfellsjökull er
Hofsjökull. Áætlunin um upptakakvísl Skjálfandafljóts er röng, því
það kemur úr Vonarskarði og þverár þess eru ekki nákvæmt staðsettar.
Jökulsá á Brú og þverár hennar eru í meginatriðum réttar.
Leiðirnar á kortinu eru í aðalatriðum rétt dregnar og skulum við nú
líta á þær. Vegurinn sem fara á er mjög nálægt því sem farið væri nú
á hestum. Pétur og Jón fylgja þeirri leið uns þeir koma vestur fyrir
Jökulsá á Fjöllum. Eftir það er leið þeirra sýnd með punktalínu. Á
þriðja degi ferðarinnar hitta þeir bæði á Hvannalindir og að öllum
líkindum í Holuhraun, vonskuhraunið þar sem járn og hófar hestanna
gengu upp. Grashagar sem enginn hefur fundið fyrr eru trúlega Hvanna-
lindir. Enginn hafði áður gert grein fyrir þessum örnefnum. Þeir fundu
ekki rústir útilegumannakofanna í Hvannalindum. En löng og erfið