Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Blaðsíða 75
ÁRMANN HALLDÓRSSON
Stúlka í gapastokki
í ritsafninu Að vestan (Ak. 1955) II. bindi bls. 162 er stutt frásögn
sem nefnist Nú duga engar sperringar. Sigmundur Matthíasson Long
(1841 - 1924) færði í letur, og reyndar er bindið allt eftir hann.
Frásögnin er úr Fellum á Héraði og af atvikum sem gerðust á síðari
hluta 18. aldar. Sögustaðir eru prestsetrið Ás og bæirnir Ormarsstaðir
og Sigurðargerði, sem var afbýli frá Ási. Einnig Birnufell. Bæir þessir
eru innan við mið Fellin og nálægt Lagarfljóti. Frá Ási er tæp tveggja
km leið út og upp að Sigurðargerði og um þrír km í Ormarsstaði.
Birnufell er 4 - 5 km utan við Ormarsstaði.
Aðalpersónur eru tvær, Bessi Árnason bóndi og hreppstjóri á Orm-
arsstöðum, auknefndur auðgi, og Jófríður Magnúsdóttir. Auk þeirra
er kona Bessa, Málmfríður Árnadóttir, nafngreind , synir þeirra,
Magnús og Bessi Bessasynir á Birnufelli, og fleiri.
í Ættum Austfirðinga er gerð fyllri grein fyrir þessu fólki. Bessi
Árnason er sagður fæddur um 1736 og dáinn 1795, Málmfríður dáin
1790 eða 1791. Jófríður er skráð í sóknarmannatölum Þingmúla og
Áss og aldur tilgreindur. Hún hefur samkvæmt því verið fædd 1764
eða 1765, og verður hér miðað við 1764 fyrir hentugleika sakir.
Bessi var frá Arnheiðarstöðum í Fljótsdal, faðir hans Árni Þórðarson
sem Arnheiðarstaðaætt er rakin frá. Málmfríður (Málfríður í Ættunum)
var dóttir Árna Vigfússonar lögréttumanns á Ormarsstöðum og átti eina
systur sem ekki er kunnugt um nafn á. Bessi eignaðist Ormarsstaði,
sjálfsagt út á kvonfangið, og er kallaður nefndarmaður í þætti Sigmundar.
Líklega á hann við að hann væri merkur maður, orðið þýðir þó líka
lögréttumaður, en slík vegsemd féll honum víst ekki í skaut. Sigmundur
segir hann hafa verið hreppstjóra og hlýtur svo að vera eftir því að dæma
sem fram kemur í þættinum. Þau Bessi og Málmfríður áttu tvo syni, Jón
(f. um 1769) sem bjó eftir föður sinn á Ormarsstöðum, og Árna (f. 1772)
bónda á Krossi í Fellum. Auk þess átti Bessi dóttur í framhjáhaldi.