Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Side 89
MÚLAÞING
87
II
Eg skrifaði þessa frásögn eftir afa mínum, Birni Jónssyni á Snotrunesi
fyrir 45 árum. Hann var umræddan vetur rúmlega tvítugur að aldri og
vinnumaður að nokkru leyti hjá Halli Einarssyni og Gróu Björnsdóttur
á Rangá, en jafnframt við smíðanám hjá Jóni Magnússyni snikkara.
Frásögnin lýsir viðbrögðum í aðsteðjandi harðindavanda.
Veturinn 1880 - 1881 var harður með afbrigðum og hélt víða við
felli um Fljótsdalshérað. Hallur hafði marga gripi og næg hey til eigin
nota, en þótti betur að sparlega væri á haldið og leit stranglega eftir
því. Hann hafði beitarhús með 150 kindum, sauðum, tvævetlum og
geldám. Honum líkaði ekki við fjármanninn, og á jólaföstunni kom
hann að máli við mig og biður mig nú að taka við fjármennskunni á
húsunum. Að vísu þætti sér leitt að skerða smíðatíma minn, en þetta
yrði þó að sitja fyrir, því að sér þætti harðsnúið að á sínu heimili væri
bruðlað með hey þegar aðrir væru á nástrái. Eg varð að sjálfsögðu við
þessari bón.
Þennan vetur ráku ýmsir bændur utan að Héraði upp í Fljótsdal, en
þar brást aldrei jörð. Einn þeirra var Einar Sigfússon á Stóra-Bakka.
Hann kom að Rangá að kvöldlagi og fékk hús og hey handa fé sínu.
Féð var orðið rýrt, en hann komst þó upp eftir og var þá borgið.
Annar bóndi, Snorri Rafnsson í Dagverðargerði, flúði á náðir Halls
síðar um veturinn. Var þá farið að sverfa að fyrir alvöru með hey og
korn. Eg sat í frammihúsi við að mala korn þegar Snorri kom og heyrði
á tal þeirra hjóna, Halls og Gróu. Hallur segir að nú sé Snorri kominn
og þau megi til að veita honum einhverja úrlausn. Hún tekur því vel,
en segir að sú hjálp muni skammt hrökkva, því að ekki væri eftir nema
ein hálftunna af korni. Þau urðu ásátt um að skipta þessari hálftunnu.
Þegar gestir komu að Rangá barst talið jafnan að harðindunum.
Taldi Hallur menn jafnan til að gæta þess svo vel sem kostur væri að
draga ekki við hestana. Væri það helsta bjargarvonin, að hægt yrði
með einhverjum ráðum að brjótast ofan yfir fjall og sækja korn, en
því aðeins væri það hægt að hestarnir héldu óskertum kröftum.
Þar kom að horfið var að þessu ráði fyrir orðastað Halls. Snemma
morguns lögðu Tungumenn af stað áleiðis til Seyðisfjarðar með 30 -
40 sleðahesta. Gekk ferðin ofan yfir seint en slysalaust og náðu þeir