Feykir


Feykir - 08.01.2009, Blaðsíða 9

Feykir - 08.01.2009, Blaðsíða 9
01/2009 Feykir 9 Eyþór Árnason frá Uppsölum var sviösstjóri Stöövar 2 viö upptökur á Kryddsíld. Eyþór skrifaöi bloggfærslu um baráttuna viö mótmælendur sl. Gamlársdag. Feykir fékk góðfúslegt leyfi til þess aö birta hluta úr bloggi Eyþórs. Bardaginn á Borginni Formáli Ég er uppalinn í Skagafirði. Þar logar sagan á hverri þúfu. Manndráp og húsbrennur. Stundum þegar ég var ungur og keyrði út Blönduhlíðina og fór framhjá skilti við veginn sem vísar til íjalls og á stendur Örlygsstaðir sló þessari hugsun ofan í hausinn á mér: Hvernig var þetta? Kannski skil ég þessa forfeður mína aðeins betur i dag, því allt í einu lenti ég í stríði. Var í fyrstu frétt á nýársdag á undan fyrsta barni ársins. J Ég hélt að þetta myndi ekki fara svona. Þar sem Örlygs- staðabardagi var ekki tekinn upp á myndband eða disk verður maður að láta söguna duga. Sagt er að söguritari hafi verið í bardaganum. Ég var í bardaganum á Borginni. Ég æda núna að skrifa söguna eins og hún kom mér fyrir sjónir. Þetta verður ekki frásögn stríðsfréttaritarans heldur frá- sögn sviðsstjórans sem var inni í húsinu og eðlilega lituð af því. Morgunninn Ég vaknaði, fór í sturtu og dreif mig út til að sækja sendibíl með dótinu, áramótaskrauti og alls konar tæknidrasli. Hitti félaga og við lögðum í hann á Borgina. Flaggskipið okkar, upptöku- bíllinn Farsæll RE309, sem er reyndar kafbátur þegar vel er að gáð, var kominn á sinn stað á stéttinni, klukkan í Dóm- kirkjunni sló. Búið að draga línurnar eða kaplana inn í hús og mynd og hljóð tilbúið í pípunum. Matur og farið yfir planið og rætt aðeins um hvað gæti gerst ef mótmælin sem var vitað af yrðu of hávær og hvað ætti að gera ef reynt yrði að fara inn í húsið. Eða klippt á kaplana. Ég dró það í efa. Ef eitthvað þvílíkt gerist verður hringt á lögguna. Eftir matinn Formenn byrja að mæta. Gamli fiðringurinn kemur. Allt að gerast. En ég er ekki viss. Ég er hugsi. Við verðum að loka dyrunum betur þar sem kaplarnir koma inn. Vorum ekki með neitt í höndunum. Ég snara mér aftur fyrir hús og finn þar spýtnabrak, stel mér spýtu og dreg inn á Borgina og bý til þennan fína slagbrand til að hægt sé að binda hurðina aftur. Ekki var þessi spýta mjög burðug og hefði ekki dugað í hrútaspil í sveitinni. Ég áttaði mig ekki á því að ég væri að fara í stríð. Hljómsveit og söngvari mættir. Menn ársins mæta. Allir formenn mættir nema forsætisráðherra. Vissum að hann yrði seinn fyrir. Hljóðprufa og stradivariusinn í stuði. Allir setjast. Hljóðnemar festir. Ég hleyp út og loka hliðinu í portinu. Heyrði hávaða og sá bregða fyrir hettuklæddu fólki. Inn og hurðinni hallað og slagbrandur fyrir og gafferteip fyrir rifuna. (Slagbrandur - öllu má nú nafn gefa.) Og það er talið niður. Kryddsíld Það var ekki fyrr en þátturinn var farinn í loftið að ég tók eftir hávaðanum. Húsið var barið utan. Kikti fram í Silfur, það nötraði allt og skalf. Þá kom það. Kallið frá drengjunum mínum: „Þeir eru búnir að brjóta upp hurðina. Þeir eru komnir inn." Ég hljóp fram og við mér blöstu opnar dyr og svartir skuggar dansandi í desemberbirtunni. Slagbrand- urinn fíni brotinn. Ég hljóp í dyrnar og leit yfir sviðið. Sennilega til að meta stöðuna. Gera menn það ekki í stríði? Og augnabik fannst mér eins og tíminn stæði kyrr. Mér finnst eins og slatti af svörtu fólki hafi verið kominn inn í portið. Einhverjir voru uppi á hliðinu. Aðrir á leiðinni niður. Þetta augnablik þegar allt var kyrrt fannst mér eins og allir horfðu á mig og væru að meta stöðuna. Ég reyndi að meta stöðuna. Ég veit ekkert hvernig ég mat hana. Það var bara eitt í stöðunni: Verja vígið. Komst aldrei annað að eitt augnablik. Og hringja á lögguna. Bardaginn Það er kannski tilgangslaust að lýsa bardaganum. Hann er að mestu til á myndbandi. En það sem ekki sést vel er hvernig manni leið. Inni í sér. Bardagi er kannski ekki rétta orðið. Hnoð, nudd eða stimpingar eru kannski réttari orð. Og hróp og köll. Sennilega rosalegur hávaði. Svolítið eins og í réttum. Stóðréttum. Og þó, þetta var líkara því að kljást við kálfa. Samt leið manni eins og þetta væri stríð. Þarna vorum við í byrjun fjórir drengir. Fjórir litlir hobbitar og móti okkur streymdi her. Her af svörtu andlitslausu fólki. Andlitslausir Orkar. Og það var svo skrítið að ég sagði ekki neitt. Gat ekki sagt neitt. Hafði ekkert að segja við andlitslaust fólk. Orka. Og við tókumst á. Og ég náði einum. Og tók utan um hann. Hélt þéttingsfast. Ætlaði aldrei að sleppa. Hann hnubbaðist á móti eins og lax nýkominn úr neti og sagði lágt: „Slepptu mér, ég er ekki í stríði við þig." Ég tautaði á móti: „Þið farið aldrei hér inn." Og dansinn hélt áfram. Dansinn við andlitslausa drenginn. Þegar hér var komið sögu hafði hobbitunum borist hjálp frá kokkaliðinu og barstúlkurnar voru komnar í slaginn. Barstúlkurnar á Borg- inni. Glímukappinn hefði orðið stoltur af liðinu sínu. En við máttum undan síga. Þunginn jókst og hrópin hækkuðu. Við vorum að verða undir. Svarta liðið átti bara fimm metra eftir að hurðinni inn í Gyllta salinn. Þangað sem förinni var greini- lega heitið. Ég fann að nú leið að úrslitastund. Ég er enginn Aragon með álfasverð eða Legolas með margar örvar á lofti í einu, bara lítill hobbiti eins og hinir drengirnir mínir sem ég vissi ekki hvernig leið. Sá svona útundan mér að þeir voru enn á fótum og gáfu allt. En þótt ég fyndi að úr- slitastundin nálgaðist vissi ég ekki hvað gera skyldi. Fann bara að ég yrði að standa á fótunum og berjast, verja salinn,. Og mér finnst að ef þessi óundirbúna orusta hefði staðið aðeins lengur þá hefði kannski eitthvað gerst sem maður vill helst ekki hugsa um. Eitt finn ég. Ég hefði barist. Meðan ég hefði staðið í fæturna. En allan þennan tíma og ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, ég tala bara út frá mér og það er kannski nokkuð merkilegt. Mér fannst þetta heiðarlegur bardagi. Undarlega drengilegur. Þeir andlitslausu ætluðu inn. Við ætluðum ekki að hleypa þeim. Og það var aldrei talað um það okkar á milli. Föruneytið skipulagði ekki vörnina. Hún bara varð eins og hjá ungum drengjum i fótbolta. Og eins með Orkana. Þeir sigu á okkur hægt og bítandi. Samt eins og þeir væru ekki alveg vissir hvert þeir væru að fara. Kannski þekktu þeir okkur. Kannski kunnu þeir ekki við að taka á okkur. Og hvað með mig? Ég veit ekki hvern ég var með í fanginu, ég veit ekki hverjum ég var að hrinda. Kannski voru þetta frændur mínir, tengdasonur minn, drengir sem ég hef málað með leikmyndir eða maðurinn í næsta stigagangi. Ég gat ekkert sagt. Ég tala ekki við andlitslaust fólk. En eins og í bíómyndunum þegar vonin er að bresta heyrðist hljóð á hæðinni. Allir litu upp og löggan streymdi niður dalinn. Og þá var eins og allt færi í fastar skorður. Varnarliðið ósamstæða forðaði sér bak við lögguvegginn og það var eins og Orkunum létti. Nú kunnu þeir leikinn. Það var eins og alda færi um hópinn, þeir settust niður og byrjuðu að syngja og biðu. Biðu með stolti eftir gasinu. Og þar með hljóp ég frá vígvellinum. Ósærður. Og inn í gyllta sal. Mundi að þar var Kryddsíld í gangi. Gyllti salurinn Ég fór að smala hljómsveitinni og óperusöngvaranum. Þeir höfðu fundið sér var. Ég rak þá á sína staði og leit yfir salinn. Spurnarsvipurinn skein úr andlitunum. Formennirnir reyndu að halda andlitinu en óskuðu sér örugglega langt í burt. Handan við vegginn stóð löggan og innrásarliðið. Og hávaðinn, lætin, reykur og brunabjöllur. Þetta átti Nýi kvartettinn að kljást við. Og þeir byrjuðu að spila. Ave María effir Kaldalóns, svo undurblítt. Maður hélt kannski að það myndi hrífa og allir myndu leggjast niður og hlusta. Hlusta á Kaldalóns. Og þá fann ég það. Titanic var að sökkva. En kannski vissu það ekki allir. En ég fann að hljómsveitin vissi það. Fiðluleikarinn leit oft til dyra, viðbúinn með straddann. Píanóleikarinn sökk í píanóið og sellóleikarinn hélt í strengina. Söngvarinn stóð kyrr með Kaldalóns í fanginu og brunabjölluna í eyrunum. Næst þegar ég heyri þetta lag mun ég muna þegar ég sökk. Því þegar laginu var að ljúka var kippt fast í einn kapalinn, myndavélakapalinn. Og það var tekið fast. Þetta var ekki kálfur, þetta var líkara dráttarklár. Og maður kastaði sér á kapalinn. Og það komu fleiri. En það tók fljótt af. Myndavél 3 hvarf úr loftinu. Maður fann að þetta fór að styttast. Titanic var farið að hallast. Og hrópin héldu áfram úti og inni og í samskiptakerfi kafbátsins Farsæls og gylltu síldarskútunnarTitanic. Maður heyrði: Vél 1 farin! Vél 4 farin! Vél 5 farin! Ég á bara eina vél! Svo var þögn í heyrnartólinu. Þá vissi maður að þetta var búið. Tilraun til Kryddsfldar 2008 var lokið. Sjónpípurnar voru brunnar. Hljóðtaugin var brunnin. Farsæll RE 309 kafaði í djúpið. Hvaó SVO? Einhver mundi eftir mönnum ársins. Silfurmönnum tveimur sem hírðust úti í horni ásamt einum löggumanni og tveimur handjárnuðum innrásarmönn- um. Þeir báru sig vel. Enda spilað haldbolta í útlöndum og komið heim með pening. (Ég fattaði bara ekki að lokka þá með í vörnina í bardaganum. Þeir hefðu örugglega verið betri en enginn.) Þeir voru drifnir inn, fengu blóm og diplóma. Formönnunum var hjálpað að grafa upp yfirhafnir sínar og töskur og fengu lögreglufylgd að bílum sínum. Við settumst niður og sleiktum sárin. Stríðið geisaði áfram úti. Við byrjum að taka saman. Við kunnum það.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.