Tölvumál


Tölvumál - 01.07.2007, Blaðsíða 29

Tölvumál - 01.07.2007, Blaðsíða 29
2 8 | T Ö LV U M Á L T Ö LV U M Á L | 2 9 auka aðgengi utanaðkomandi að hugbúnaði sínum. Í því geta falist tækifæri til ódýrari og hraðari þróunar með því að nýta hugbúnað og hugbúnaðarhluta sem aðrir höfundar hafa þegar samið og prófað og dreift er með sams konar hætti. Svonefndur „opinn hugbúnaður“ (e. open source) er eitt helsta dæmið um slíkan samnýtanlegan hugbúnað, en þess háttar hugbúnaði er dreift sem frumkóða (e. source code) og án endurgjalds, en með ákveðnum kvöðum. Við þessar aðstæður er hugbúnaðarfyrirtækjum mikilvægt að marka sér skýra stefnu varðandi réttindi þeirra í þeim hugbúnaði sem þau framleiða. Hluti af þeirri stefnumótun þarf að felast í því að greina hvort og þá hvaða hugbúnað sé rétt að bjóða til dreifingar með samnýtanlegum hætti. Hvað varðar annan hugbúnað hugbúnaðarfyrirtækja er nauðsynlegt að ákveða hvernig dreifingu hans skuli háttað, hvaða not skuli vera heimil af honum og með hvaða skilyrðum. Þessari stefnu þarf svo að fylgja vel eftir með samræmdum hætti í þeim samningum sem gerðir eru um sölu og afnot hugbúnaðarins. Hvernig verja hugbúnaðarfyrirtæki hugverkaréttindi sín? Allur gangur er á því hvernig hérlend hugbúnaðarfyrirtæki hafa leitast við að verja réttindi sín í þeim hugbúnaði sem þau framleiða. Algengt er að í eldri samningum um sölu hugbúnaðar eða um hugbúnaðargerð séu fábrotin, óljós eða alls engin ákvæði um höfundarétt. Þessi óskýrleiki hefur að nokkru leyti ekki komið að sök þar sem ákvæði höfundalaga nr. 73/1972 hafa ávallt verið talin ná til hugbúnaðar, auk þess sem lögin hafa frá árinu 1992 innihaldið sérstök ákvæði um „tölvuforrit“. Á síðari árum hefur hins vegar færst í vöxt að í slíkum samningum sé áskilnaður um höfundarétt seljanda eða verktaka, auk þess sem sérstakir nytjaleyfissamningar eru nú orðið oftast nær hluti af slíkri samningagerð. Nokkur atriði sem ber að varast Að lokum skulu hér nefnd nokkur dæmi um atriði sem ber að varast þegar hugbúnaðarfyrirtæki leitast við að verja höfundarétt í hugbúnaði sínum. Fyrir hvern eru samningar skrifaðir? Samningar verða að gefa skýra mynd af því sem ætlast er til af aðilum hans. Lesandanum þarf að vera ljóst hvað eigi að gera, fyrir hvaða tíma, hvað beri að afhenda og gegn hvaða greiðslu, hver beri ábyrgð á hverju og hvenær og hvernig samningnum sé ætlað að ljúka, svo eitthvað sé nefnt. Samningurinn þarf þannig að vera upplýsingaplagg fyrir þá sem eiga að framfylgja honum, þ.e. aðilana sjálfa. Þrátt fyrir þetta mikilvæga hlutverk samninga þá gleymist oft að ef ágreiningur rís um framkvæmd samninga þá eru það jafnan dómstólar sem skera úr þeim ágreiningi. Í viðamiklum málum er að vísu heimilt að skipa dóma sem í sitja tveir héraðsdómarar og einn sérfróður meðdómsmaður. Hins vegar eru héraðsdómarar ávallt lögfræðingar og sjaldnast með sérfræðiþekkingu á sviði hugbúnaðargerðar. Því er nauðsynlegt að samningar á sérhæfðum sviðum, til dæmis í hugbúnaðargerð, séu samdir með þetta í huga. Rétt er að gæta að því að í slíkum samningum sé með skýrum hætti tiltekið á mannamáli hverjar skyldur og réttindi aðila séu og mikilvægra atriða ekki látið ógetið, jafnvel þótt aðilar kunni í samningsgerðinni að telja slík atriði sjálfgefin. Loks er rétt að hafa í huga að ef aðilar ætla að byggja á ólögfestum venjum eða hefðum á viðkomandi sérsviði er oft betra að vísa beint til slíkra reglna í samningi aðila en að láta þeirra ógetið. Að öðrum kosti kann að vera að þær verði látnar víkja, ef ekki tekst að sanna þær og ef efni þeirra stangast til dæmis á við önnur ákvæði viðkomandi samnings. Óskýrt samband við starfsmenn Hugbúnaðarfyrirtæki hafa í seinni tíð flest hver tekið á þeim vanda sem felst í óvissu um hvort fyrirtæki eða starfsmenn þess eigi höfundarétt að hugbúnaði sem starfsmennirnir vinna að hjá fyrirtækinu. Hins vegar er enn sem fyrr rétt að kveða skýrt á um í ráðningarsamningum hvar höfundarétturinn skal liggja, til að komið verði í veg fyrir óþarfa óvissu um það atriði. Verja eigin hugbúnað, ekki einungis hugbúnað birgja Algengt er að hérlend hugbúnaðarfyrirtæki semji hugbúnað sinn á grundvelli annarra lausna, til dæmis erlendra gagnagrunnskerfa, sem seldar eru samhliða hinum íslenska hugbúnaði. Í samningum um slíkan hugbúnað er allt of algengt að tekin séu rækilega upp ákvæði sem hinn erlendi birgir hefur áskilið að væri í samningnum um vernd höfundaréttinda í hugbúnaði hans, en lítið eða ekkert sé áskilið varðandi rétt hins íslenska hugbúnaðarfyrirtækis til eigin hugbúnaðar. Eintök og afnot seld, en ekki höfundaréttindi Höfundur á þann einkarétt að sköpunarverki sínu sem felst í höfundarétti og sú meginregla nær einnig til höfunda tölvuforrita og verka þeirra. Hins vegar þarf að hafa í huga að hægt er að afsala sér megninu af höfundarétti að hugbúnaði með frjálsum samningum, þar á meðal öllum fjárhagslegum réttindum. Því er nauðsynlegt að engum vafa sé undirorpið í hvaða tilvikum sé einungis verið að selja eintök af hugbúnaði eða rétt til notkunar hans og í hvaða tilvikum sé einnig verið að selja höfundaréttindi að honum, svo sem rétt til eintakagerðar, dreifingar o.s.frv. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga við tilboðsgerð í útboðum um hugbúnaðargerð, þar sem oft eru nú orðið gerðar afar ríkar kröfur til verktaka, svo sem um afhendingu frumkóða og réttinda til skilyrðislausrar, ótímabundinnar notkunar. Hörður Helgi Helgason hdl. hjá Lögmönnum Skólavörðustíg 12

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.