Tölvumál


Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 29

Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 29
T Ö L V U M Á L | 2 9 Reynsla mín af kerfinu og hvaða áfangar henta Allar brautir BHS eru með áfanga skráða í Moodle en fjöldi þeirra er misjafn eftir brautum, allt frá 1 upp í 54. Þá byggir allt dreifnám í Borgarholtsskóla á notkun námsþingins Moodle en það lætur nærri að vel á þriðja hundrað nemendur stundi dreifnám við skólann. Ég hef núna notað námsþingið Moodle í 3 ár og eru allir áfangar sem ég kenni þar inni, hvort sem þeir eru verklegir eða fagbóklegir. Dæmi um áfanga sem ég er með á námsþinginu eru stýritækni og hlífðargassuða. Moodle er ekki síst samskiptavefur þar sem nemendur og kennarar geta haft samskipti í eða utan kennslutíma eða hvenær sem hentar. Kennari kemur upplýsingum á framfæri og nemendur skoða þegar þeir vilja, eða þegar kennari vill. Umræðuvettvangar gefa mikla möguleika á gagnvirkni, skoðanaskiptum og fyrirspurnum. Ekkert týnist, verkefnaskil eru skráð, það þarf ekki að rökræða um það hvort verkefnum hafi verið skilað eða ekki, kerfið skráir allt og kennari getur fylgst með virkni nemenda. Mismunandi form er hægt að nota á skrám s.s. doc, exe, ppt, pdf o.s.frv. Efni er hægt að hafa í lit, en það er mjög dýrt að prenta út gögn í lit og hlýst því verulegur sparnaður af því að nota námsþingið, auðvelt er að koma fyrir krækjum í verkefni eða vefslóðir. Nemendur geta skilað verkefnum inni í kerfinu, kennarar farið yfir og sent til baka rafrænt sem sparar gríðarmikinn ljósritunarkostnað. Þegar verkefnum hefur verið skilað inn fer kennari yfir og gefur einkunn ef hann vill og kerfið skráir einkunnina þannig að nemandi sér strax hvernig hann stendur sig og umsögn getur fylgt með. Auðvelt er að búa til spurningabanka og tengja hann við verkefni, stöðumat, skyndipróf eða lokapróf. Ég hef búið til þrjár gerðir af spurningum þ.e. krossar, para saman, og satt/ósatt. Mín reynsla af prófunum er mjög góð. Nemendum finnst þægilegt að taka prófið í tölvu, þeir vilja það frekar en að skrifa á blað. Ég hef valið að stilla prófin þannig að spurningar og svarmöguleikar handahófs raðast. Það gerir það að verkum að hægt er að hafa nemendur hlið við hlið að taka sama prófið þar sem nær ógerlegt er að svindla. Að vísu er mikil vinna í upphafi að búa til spurningarnar ásamt svarmöguleikum en til lengri tíma litið þá skilar sú vinna sér margfalt. Gott dæmi um notkun krossaspurninga er í áfanganum HSU 102 en það er hlífðargassuða. Ég hef búið til 6 spurningaflokka sem tengjast verkefnabókinni. Nemendur svara spurningunum í bókinni, fara síðan út á námsþingið og reyna við spurningarnar þar og fá strax að vita hvernig þeim gengur. Mig langar að nefna annað dæmi um notkun Moodle námsþingsins. Þannig er að ég kenndi logsuðu á síðustu önn og tók myndir af nemendum þar sem þeir voru m.a. að logsjóða, logskera og kveikja saman efni. Þessar myndir notaði ég síðan í lokapróf nemenda og þannig urðu þeir sjálfir þátttakendur í prófinu. Hugmyndin er að ef nemendur sjái sjálfa sig að störfum þá eigi þeir auðveldara með að tengja hvaða svar er réttast við spurningunum. Þeir kunnu vel að meta þessa nýbreytni og gekk ágætlega í prófinu. Kostirnir eru ótvíræðir Ég tel að upplýsingatæknin komi til með að aukast í skólastarfi en hvað er besta aðferðin er önnur saga. Kennarar verða að meta hvernig þeir nota tæknina og kannski þarf að blanda saman hefðbundnum aðferðum með t.d. krítinni góðu og tækninni. Þegar ég byrjaði að nota Moodle var það mikil vinna því eitt er að eiga gögn og annað að koma þeim á rafrænu formi inn í kennslukerfi. Ég notaði því mikinn tíma í að koma gögnunum inn í kerfið en í dag nýt ég góðs af því þar sem ég get á auðveldan hátt dreift mínu efni og endurnýtt það næst þegar ég kenni sama áfanga. Kosturinn við að leggja krosspróf fyrir rafrænt er ótvíræður. Ég var t.a.m. með 10 nemendur í öldungadeild í kælitækniprófi sem var 50 spurningar með fjórum svarmöguleikum. Eina sem ég gerði var að útbúa spurningarnar og setja í kerfið, skrá niðurstöður og nemendur gátu séð niðurstöður og skoðað prófið strax en það fannst þeim kostur. Ég tel að við komumst ekki hjá því að nota upplýsingatæknina við okkar starf sem kennarar og ef við kjósum að gera það ekki munum við dragast aftur úr og staðna. Hvað verður eftir 10 ár vitum við ekki, kannski sýndarveruleiki. Í það minnsta vissi ég ekki þegar ég byrjaði að kenna og notaði ritvélina góðu að 15 árum seinna stefndi í að allt mitt efni færi út á Moodle. Kerfið er notað út um allan heim ­ einkum á skólavettvangi og kostar ekkert Moddle mætti kalla námsþing Við komumst ekki hjá því að nota upplýsingatæknina við okkar starf sem kennarar

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.