Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 16

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 16
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 90. árg. 201412 í sár og látar þorna þar (e. wet to dry). Þegar grisjurnar eru síðan fjarlægðar úr sárinu rífa þær með sér það sem hangir í þeim hvort sem það er lifandi eða lífvana hold. Þessi aðferð var viðurkennd hér áður og viðgengst því miður sumstaðar enn. Þetta er ónákvæm aðferð við að hreinsa sár þar sem mikil hætta er á því að lifandi holdgunarvefur sé rifinn upp úr sárbotninum og er auk þess sársaukafullt fyrir sjúklinginn og ætti því alls ekki að nota. Aðrar og nýrri aðferðir við mekaníska hreinsun eru þegar sár eru til dæmis hreinsuð með því að sprauta á þau vatni eða öðrum skolvökva undir þrýstingi með þar til gerðum áhöldum og tækjum. Oft er hægt að hreinsa skánir og óhreinindi af yfirborði sárs með einfaldri stáltöng án þess að særa sárbeðinn. Notkun sárasogsmeðferðar hefur aukist til muna á síðustu árum, sérstaklega við meðferð langvinnra sára. Þó að megintilgangur sárasogsmeðferðar sé að stuðla að uppbyggingu holdgunarvefs í sári hafa nýjar rannsóknir og reynsla sýnt að sárasogsmeðferð flýtir fyrir hreinsun sára. Þegar undirþrýstingur myndast undir loftþéttum sáraumbúðum sem tengdar eru við sárasuguna veldur það því að sáravessi sogast frá sárinu. Við það hreinsast sárið, það dregur úr bjúgmyndun og bakteríubyrði minnkar. Einnig er talið að sárasogsmeðferðin geti stuðlað að niðurbroti á dauðum vef og auðveldað þannig hreinsun með hníf og skærum. Sjálfsleysing eða sjálfsmelting (e. autolysis) er ferli sem á sér stað þegar dauður vefur losnar eða leysist upp í sári fyrir tilstuðlan ensíma sem líkaminn sjálfur framleiðir. Hægt er að flýta fyrir sjálfsleysingu með því að búa um sár með loftþéttum umbúðum. Þegar slíkar umbúðir eru notaðar, til dæmis kökuumbúðir, filmur eða svampar með límkanti, myndast súrt og rakt umhverfi í sárinu en slíkar aðstæður stuðla að sjálfsleysingu. Rakagel er einnig notað til að auka raka í óhreinum sárum. Í minni sárum, þar sem vefjaskaði er ekki mikill, getur þessi hreinsun ásamt því að skola sárið verið nægileg. Þessi hreinsunaraðferð tekur tíma en er sársaukalaus og hefur litla áhættu í för með sér. Í sárum, þar sem vefjatap er meira, getur þessi aðferð verið hjálpleg til að mýkja upp dauðan vef áður en sárið er hreinsað með áhöldum eins og töngum, hníf eða skærum. Hreinsun með hjálp flugnalirfa á sér langa sögu. Þessa aðferð má rekja allt til daga Florence Nightingale eða þegar hermenn börðust í návígi og særðir lágu eftir ósjálfbjarga á vígvellinum. Menn tóku eftir því að sár, sem flugnalirfur eða maðkar höfðu sest í, voru jafnan hreinni og síður sýkt en önnur sár. Flugnalirfur gefa frá sér ensím sem brjóta niður dauðan vef. Úrganginn nota lirfurnar sér til næringar. Ensím þeirra brjóta eingöngu niður dauðan vef en ekki lifandi vef og því er þetta mjög sérhæfð hreinsunaraðferð. Í nútímanum eru lirfur ræktaðar við dauðhreinsaðar aðstæður og notaðar með góðum árangri til að hreinsa sár sem erfitt hefur reynst að hreinsa með öðrum hætti. Dæmi um sár, sem lirfur eru notaðar á, eru sykursýkisár og legusár. Líftími lirfa er stuttur (5­7 dagar) og því þurfa þær að komast í sárin sem fyrst eftir að þær klekjast úr eggjunum. Lirfur eru sjaldan notaðar á Íslandi þar sem erfitt og kostnaðarsamt er að útvega þær. Samantekt Hreinsun sára er mikilvæg og getur verið afgerandi fyrir árangursríka sárgræðslu. Ýmsar leiðir eru til að hreinsa sár. Þekking og færni meðferðaraðila sem og aðgengi að efnum og áhöldum setja skorður varðandi þær leiðir sem valdar eru. Hefðbundnar aðferðir, svo sem skolun sárs og það að skafa, skera eða klippa dauðan vef, eru vel þekktar. Sértækari hreinsunaraðferðir, eins og notkun flugnalirfa eða tæknilegra áhalda og tækja, eru einnig spennandi kostir sem vert er að skoða. Engum dylst að hlutverk hjúkrunarfræðinga í sárameðferð er umtalsvert og þeir eru lykilaðilar þegar kemur að því að annast reglubundna umönnun sára. Ákvörðun um hreinsun sára með skærum og hnífum svo og sértækar aðferðir eins og sárasogsmeðferð er þó alltaf tekin í samráði við lækni og framkvæmd af aðilum sem hafa fengið sérstaka þjálfun. Sárameðferð er samvinna, og öryggi og velferð sjúklings skulu alltaf höfð að leiðarljósi við ákvörðun um meðferð. Heimildir: Flanagan, M. (2012). Principles of wound management. Í M. Flanagan (ritstj.), Wound healing and skin integrity, principles and practice (bls. 66­83). Oxford: Wiley­Blackwell. Fernandez, R., og Griffith, R. (2012). Water for wound cleansing. Cochrane Database of Systematic Reviews, Issue 2. DOI: 10.1002/14651858.CD003861.pub3. Sótt 10. febrúar 2014 á http://onlinelibrary.wiley.com/ doi/10.1002/14651858.CD003861.pub3/pdf/ abstract. Ingibjörg Guðmundsdóttir (2013). Sárasogsmeðferð. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 89 (5), 28­29. Leaper, D.J., Schultz, G., Carville, K., Fletcher, J., Swanson, T., og Drake, R. (2013). Extending the TIME concept: What have we learned in the past 10 years? International Wound Journal, 9 (4), S1­19. Schultz, G.S., Sibbald, R.G., Falanga, V., Ayello, E.A., Dowsett, C., Harding, K., o.fl. (2003). Wound bed preparation: A systematic approach to wound management. Wound Repair and Regeneration, 11, S1­28. Skörp hreinsun – hreinsun með agntöng og skærum.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.