Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 24

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 24
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 90. árg. 201420 því hvattir til að fara að lögum og skrá öll atvik sem upp koma samkvæmt reglum stofnunar og láta vita um leið og þeir verða varir við eða þeir telja að ráðstafanir stjórnvalda eða annarra stjórnenda gangi gegn hagsmunum skjólstæðinga. Þá ber þeim einnig að tilkynna til viðeigandi aðila ef heilbrigði eða öryggi skjólstæðings er stefnt í hættu vegna ófaglegra eða ólöglegra starfa samstarfsfólks. Hjúkrunarfræðingar geta haft samband við félagið, rætt við sinn næsta yfirmann eða snúið sér beint til Embættis landlæknis. Á vefsvæði embættisins má finna leiðbeiningar fyrir heilbrigðisfólk um hvernig og hvað ber að tilkynna. Gæti þetta gerst hér? Tímarit hjúkrunarfræðinga spurði nokkra hjúkrunarfræðinga hvort þeir héldu að annað eins og í Staffordshire gæti gerst hér. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítala, segir að fræðilega séð sé það möguleiki en hjúkrunarfræðingar á stóru sjúkra­ húsunum séu enn sem komið er fjarri þessum lýsingum. „Ég hef frekar áhyggjur af því að sum hjúkrunarheimili, og hugsanlega þær biðdeildir sem Landspítali rekur fyrir aldraða sem bíða eftir hjúkrunarheimili, séu hættulega nærri þessu ástandi,“ segir hún. Helsti áhættuþáttur sé niðurskurðarkrafan en Sigrún Huld hefur þó meiri áhyggjur af ríkjandi andrúmslofti varðandi umræður og gagnrýna hugsun. „Þar horfi ég ekki síst til eigin stéttar en hjúkrunarfræðingar eru bara allt of hræddir við að opna munninn. Á Landspítala, stærsta vinnustað íslenskrar heilbrigðisþjónustu, ríkir „þögul þöggun“ en hún er svo inngróin að það þarf varla að segja starfsfólki að það eigi ekki að hafa hátt um gagnrýnisatriði. Stjórnendur í heilbrigðisþjónustu draga upp óraunhæfar bjartsýnismyndir og starfsfólk þegir eða tekur undir,“ heldur Sigrún Huld áfram. Sigrún Huld nefnir sem dæmi viðbrögð hjúkrunarfræðinga þegar heilbrigðis­ ráðherra sagði öllum í haust að hann væri að bæta við 40 biðrýmum á Landspítala. „Í raun lokaði hann 18 á móti svo rýmin eru 24 og raunar ekki öll komin í notkun. Ég var eitthvað að tauta yfir þessu á almannafæri og það varð til þess að Stöð 2 hafði samband við mig og ég veitti þeim viðtal. Yfirmaður minn var mjög áhyggjufullur en bannaði mér þó ekki að fara í viðtal. Ég var hrædd um að fá skammir en fékk svo reyndar engar.“ Nýlega skráði hún svo atvik vegna óhóflegrar geðlyfjanotkunar aldraðrar konu á Landakoti. „Ég varð greinilega vör við að fólki þótti þetta aldeilis yfirgengileg hegðun af minni hálfu. Þegar frá leið held ég þó að viðbrögð mín hafi orðið til góðs en það þurfti sannarlega sjálfstraust og faglegt hugrekki til að gera þetta,“ segir hún. Breska atburðarásin finnst henni að mörgu leyti mjög kunnugleg. Opinbert eftirlit sé einnig afar veikur hlekkur á Íslandi. „Fyrstu viðbrögð stjórnenda eru gjarnan að neita öllu. Almennt er lítil hefð hér fyrir eftirliti og gagnrýni í starfi. Ég hef til dæmis aldrei farið í starfsmannaviðtal á minni starfsævi og hef á tilfinningunni að ég hefði oft getað leyft mér bæði eitt og annað hefði ég haft samvisku til þess án þess að kæmi til afskipta yfirmanns. Mér skilst að eftirlit með hjúkrunarheimilum frá Embætti landlæknis fari fram með boðaðri heimsókn þar sem starfsmenn embættisins ræða við stjónanda heimilisins eingöngu. Slíkt eftirlit er kannski betra en ekkert en ekki mikið meira en það,“ segir Sigrún Huld. Erla Kristbjörg Sigurgeirsdóttir er for maður fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga. Hún segist vona að ekkert þessu líkt geti gerst né gerist á Íslandi. „Ef svo illa vildi til að slíkt hneyksli kæmi upp hér á landi þá er það algjörlega óafsakanlegt og mikil hneisa fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi í heild. En þó ber alltaf að hafa í huga að þegar mikill sparnaður og aðhald er í hjúkrunarmálum er hætta á að bæði markmið og gæði hjúkrunar hreinlega glatist eða að minnsta kosti minnki. Þá er einmitt aukin hætta á mistökum í hjúkrun en það felur í sér hættu á að öryggi aldraðra sé stefnt í hættu. Sem betur fer erum við búin að vinna vel í því að innleiða gæðastaðla sem fela í sér að gæði í hjúkrun aldraðra ættu að vera trygg. Ekkert er samt öruggt og síst af öllu á hjúkrunarheimilum ef grundvallarhugsjónum hjúkrunar er ekki sinnt eins og gerðist í Staffordshire,“ segir hún. „Við getum gert margt til að koma í veg fyrir slíkt. Mér dettur fyrst og fremst í hug að við hjúkrunarfræðingarnir vinnum saman með stjórnvöldum að stefnumótun þar sem fagþekking og siðareglur okkar fái að ráða för. Hjúkrunar fræðingum, sem þekkja vel og vinna eftir siðareglum sínum, er ekkert að vanbúnaði að skipuleggja hjúkrun með mikilli sæmd. Það hefur einmitt sýnt sig að þeir hjúkrunarfræðingar, sem vinna með siðareglur í huga, eru öruggari, farsælli, víðsýnni og áhrifameiri í starfi sínu. Einnig má líka hafa í huga að landlæknisembættið, félagið okkar sem og við hjúkrunarfræðingarnir ættum að standa vel að eftirliti og fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á hjúkrunarvinnustöðum. Bæta mætti gegnsæi til dæmis á vef landlæknis­ embættissins á gæðatölum, dánartölum, slysatíðni og mönnun, svo lítið eitt sé nefnt. Þetta efni ætti að vera aðgengilegt öllum fjölmiðlum en þeir hafa ekki síst mikið hlutverk bæði til að geta þess sem vel er gert sem og þess sem miður fer í heilbrigðismálum.“ Meðvirkni með ríkjandi ástandi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæði sjúklinga og starfsmenn.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.