Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 43

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2014, Blaðsíða 43
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 90. árg. 2014 39 Ekki er óalgengt að móðir og dóttir séu báðar hjúkrunarfræðingar en sjaldgæfara er að heyra um þrjár kynslóðir hjúkrunarfræðinga. Þegar meðfylgjandi mynd var tekin á fjölskyldusamkomu ákvað Íris Þórðardóttir að benda ritstjórn á að bæði móðir hennar og dóttir væru hjúkrunarfræðingar. HJÚKRUNARFRÆÐINGAR Í ÞRJÁ ÆTTLIÐI Ingigerður Reykjalín Eymundsdóttir er fædd 1942 og útskrifaðist í október 1963. Hún er Vestmannaeyingur og var ófrísk og heimavinnandi þegar gosið varð 1973 en þá þurfti að flytja alla sjúklinga úr gamla ráðhúsinu, þar sem hún hafði starfað um árabil, yfir á meginlandið. Þegar gaus var núverandi sjúkrahús nýbyggt en engir sjúklingar komnir þangað heldur einungis heilsugæslan. Eftir gos var allt húsið innréttað og var öll starfsemi flutt þangað 1974, tólf árum eftir að byggingarframkvæmdir hófust. Ingigerður byrjaði að vinna þar 1979 og vann sem heilsugæslu- hjúkrunarfræðingur í um 20 ár við heilsu gæslu Vestmannaeyja. Íris Þórðardóttir fæddist 1964. Hún útskrifaðist í júní 1990 og vann á sjúkrahúsi Vestmannaeyja 1990-1994. Þá fékk hún starf sem líffræðikennari við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum en vinnutíminn á sjúkrahúsinu hentaði illa vegna barna og manns á sjó. Sama ár var stofnuð sjúkraliðabraut við skólann og stjórnaði Íris henni til 1999 þegar hún fluttist upp á fastalandið í Ölfus og tók við sjúkraliðabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Þar starfar hún enn. Íris var í tíu ár einnig forvarnafulltrúi skólans og var í teymi sem stjórnað var af Lýðheilsustöð og lagði grunninn að verkefninu „heilsueflandi framhalds- skólar“ sem er nú á sínu þriðja ári. Í tíu sumur leysti hún af á heilsugæslunni á Selfossi en vegna niðurskurðar hefur nú verið fækkað í starfsliðinu yfir sumarið. Frá vinstri Ingigerður Reykjalín Eymundsdóttir, sem útskrifaðist 1963, Íris Þórðardóttir, sem lauk námi 1990, og Elva Dögg Valsdóttir, hjúkrunarfræðingur síðan 2011. Elva Dögg Valsdóttir, dótturdóttir Ingi- gerðar, er fædd 1985. Hún útskrifaðist í júní 2011 frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og réð sig í afleysingar á hand-, lyf- og slysadeild hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands strax eftir útskrift og fram í janúar 2012. Hún tók sér þá fæðingarorlof í eitt ár en byrjaði á slysadeildinni í Fossvogi í janúar 2013 og er þar enn, hæstánægð að eigin sögn. Elva Dögg stefnir nú á meistaranám, vonandi á bráðasviði, á komandi árum. Þá má rifja upp að Elva Dögg fór árið 2007 í hjálparstarf til Keníu ásamt sjö öðrum hjúkrunarnemum. Þær störfuðu í mánuð við heilsugæslu í fátækrahverfum Nairobi, höfuðborgar Keníu, og söfnuðu á Íslandi styrkjum sem dugðu til kaupa á tveim sjúkrabifreiðum. Elva Dögg er einn af yngstu höfundum efnis í Tímariti hjúkrunarfræðinga en 2008 skrifuðu þær allar grein í blaðið um reynsluna frá Keníu.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.