Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2014, Blaðsíða 57

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2014, Blaðsíða 57
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 90. árg. 2014 53 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER Reiði, sorg, skömm, hræðsla, ótti, sektarkennd og tilfinning um að vera einskis virði var einnig enn til staðar. Kamilla sagðist enn finna til ótta og hræðslu eins og þegar hún var barn: „Þú veist, ég næ einhvern veginn ekki að fullorðnast almennilega. Er bara krakki, alltaf þegar mér líður illa, alltaf rosalega hrædd.“ Hún finnur einnig fyrir skömm og finnst erfitt að hugsa um áföllin: „Þetta er líka svo persónulegt allt saman.“ Vanlíðanin leiddi einnig til flótta í ofát, átröskun, vín og önnur efni eða til þess að konurnar lokuðu á eigin tilfinningar. Sumum fannst þær vera gleymnar og tengdu það við lokun á tilfinningar, eins og Petra sagði: „Ég upplifi líka að ég sé svo gleymin en kannski er það af því að ég loka á tilfinningar.“ Petra leiddist út í fíkniefnaneyslu en er allsgáð í dag. Hún telur að áföllin hafi verið orsök þess að hún fór í neyslu. Jóna notaði mat til að róa sig og byrjaði á því strax sem barn. Hún hefur átt við offituvandamál að stríða sem fullorðin. Sumar kvennanna hafa verið með sjálfsvígshugsanir og hafa reynt að fyrirfara sér. Staðan nú: geðrænir og líkamlegir sjúkdómar Konurnar telja sig ekki heilsuhraustar og finna fyrir vanmætti, þreytu og tilfinningalegri vanlíðan. Þær sögðu þó að líkamleg vandamál væru ekki þeirra aðalvandi þótt þær séu ýmist með stoðkerfisvanda, magabólgur, gigt eða verki. Hönnu finnst kvíðinn vera verstur: „Það er eiginlega kvíðinn sem er að gera mig vitlausa ... ég er kvíðin fyrir öllu, hvernig dagurinn verður og öllu mögulegu, ég verð svo þung í höfðinu. Hugsanirnar eru líka alveg á fullu, mér finnst ég ekki geta afborið meir.“ Tvær þeirra hafa á seinni árum verið greindar með áfallastreituröskun. Jóna átti vanda til að fá kvíðaköst en sagði það koma sjaldan fyrir núna. Hún hefur einnig glímt við mikið þunglyndi: „Sálfræðingurinn minn greindi mig tvisvar með áfallastreituröskun en þetta er næstum því krónískt ástand. Ég er að glíma við afleiðingarnar af áföllunum en því fylgir þunglyndi og kvíði.“ Allar konurnar áttu það sameiginlegt að vilja vinna með sjálfar sig þrátt fyrir slæma líkamlega líðan og andlega þreytu. Björk sagði það hafa hjálpað sér mikið að fara í rannsóknarviðtölin: Það hjálpaði mér heilmikið að ætla að fara í þetta viðtal ... Ég fór að hugsa svo mikið um þetta. Það sem mér finnst að þurfi að vinna með hjá mér er að vinna með kjarnann ... Í dag segi ég að ég sé orðin fullorðin ... ég sé ekki lengur fórnarlamb ... Ég ræð hvort að fólk beiti mig andlegu ofbeldi eða ekki ... ég veit að mér getur liðið betur, spurning hvort ég trúi því en ég veit ekki hvað það er að líða vel. UMRÆÐA Rannsóknin fjallar um reynslu kvenna með geðröskun, einkum þunglyndi og kvíða, af áhrifum endurtekins ofbeldis í bernsku og á fullorðinsárum á líðan, líkamsheilsu og geðheilbrigði. Rannsóknin var framkvæmd til þess að dýpka þekkingu og auka skilning á tengslum ofbeldis og geðröskunar frá sjónarhóli kvennanna sjálfra. Niðurstöðurnar sýna niðurbrot og vanlíðan kvennanna frá barnæsku til fullorðinsára, eða eins og Björk sagði: „Ég veit ekki hvað það er að líða vel.“ Konurnar í rannsókninni lýstu niðurbrjótandi áhrifum endurtekins ofbeldis, bæði í æsku og á fullorðinsaldri, en Holm o.fl. (2009) benda á að stöðugt álag og streita ásamt áföllum í æsku valdi aukinni viðkvæmni fyrir streitu og þróun geðrænna vandamála á fullorðinsaldri. Þá var enn til staðar hjá konunum andleg vanlíðan og geðræn vandamál en endurtekin áföll í æsku og líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi geta skýrt flókin vandamál einstaklinga með áfallastreituröskun (Cloitre o.fl., 2009). Rannsóknir hafa einnig sýnt að verulegar líkur eru á að alvarlega þunglyndir einstaklingar hafi orðið fyrir endurteknum áföllum frá barnsaldri (Arnow o.fl., 2011; Dennis o.fl., 2009; Heim o.fl., 2008). Uppvöxtur kvennanna einkenndist af andlegri vanlíðan, meðal annars depurð, kvíða, brotinni sjálfsmynd og litlu sjálfstrausti ásamt því að telja sig ekki hafa tilverurétt. Freydís Jóna Freysteinsdóttir (2005) bendir á að ofbeldi og vanræksla geti haft alvarlegar afleiðingar hjá börnum, meðal annars valdið þunglyndi og kvíða. Konurnar í þessari rannsókn glímdu allar við þunglyndi og kvíða ásamt því að sumar þeirra þjáðust af félagsfælni og annars konar geðröskun. Í megindlegri rannsókn Kuo o.fl. (2011) á 102 einstaklingum greindum með félagsfælni komu fram vísbendingar um tengsl félagsfælni og kvíðaeinkenna við ofbeldi og vanrækslu, en einnig um tengsl þunglyndis við vanrækslu á andlegum þörfum barns í æsku. Gerge (2010) telur áföll á barnsaldri geta aukið líkur á að konan verði tilfinningalega berskjölduð á fullorðinsárum þar sem líðanin litast af fyrri reynslu. Hræðsla og ótti hafði fylgt konunum í þessari rannsókn frá barnsaldri og sumar þeirra voru enn í viðbragðsstöðu eins og þær þyrftu enn að verja sig. Hanna og Jóna lifðu enn í ótta við gerendur frá því í barnæsku og Hanna átti erfitt með svefn. Skömmin var ríkjandi þáttur í fari þeirra og sumum þeirra fannst skammarlegt að segja frá því sem hafði komið fyrir þær. Skömm og sektarkennd geta verið ríkjandi hjá einstaklingum með áfallastreituröskun þar sem skammartilfinningin getur kallað fram streituviðbrögð við slæmum minningum (Robinaugh og McNally, 2010). Sumar kvennanna í rannsókninni töluðu um gleymsku og tengdu nokkrar þeirra það við að þær vildu forðast slæmar minningar, en það samræmist umfjöllun Foa o.fl. (2000) um fjölþætt viðbrögð við áföllum. Talið er að kynferðislegt ofbeldi í æsku geti aukið hættu á að lenda síðar meir í ofbeldissambandi (Daigneault o.fl., 2009) en mörgum kvennanna fannst jafnvel að það væri eðlilegt að þær væru í samskiptum við fólk sem færi illa með þær og við val á sambýlismanni veldu þær sér eitthvað kunnuglegt. Í ofbeldissamböndum fundu konurnar í rannsókninni til ákveðins vanmáttar við að bjarga sér enda kemur það heim og saman við að konur, sem búa við ofbeldi í nánum samböndum, finni fyrir aukinni streitu auk þess sem þær geta haft skerta andlega, líkamlega og félagslega getu (Martinez­Torteya o.fl., 2009). Þó verður að taka tillit til flókinna áhrifa áfalla á einstaklinginn, áhrifa sálfræðilegra þátta á líðan og getu til að bjarga sér, lífssögu einstaklingsins og félagslegrar stöðu (Goodman o.fl., 2009).
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.