Skólavarðan - 01.09.2006, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.09.2006, Blaðsíða 24
24 NÁMSGÖGN SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 6. ÁRG. 2006 Námsefni fyrir grunnskóla um siðferði og öryggi í notkun Netsins og tengdra miðla hefur ekki verið á hverju strái hingað til. Nú er bætt úr þessu með nýju námsefni sem SAFT-verkefnið hjá Heimili og skóla gefur út. Því er dreift í alla grunnskóla landsins þeim að kostnaðarlausu og verður einnig aðgengilegt á vefsíðu SAFT www.saft. is og víðar. Skólavarðan fékk Önnu Margréti Sigurðardóttur verkefnisstjóra SAFT til að segja frá námsefninu og fer grein hennar hér á eftir. Hér er komið skemmtilegt og áhugavert efni sem miðað er við að nýtist ekki aðeins í tölvutæknikennslu heldur er markmiðið að hægt sé að nýta það, að hluta eða í heild, í öllum fögum þar sem notkun á Netinu kemur við sögu. Þau Björgvin Ívar Guðbrandsson og Dögg Lára Sigurgeirsdóttir kennarar við Langholtsskóla sömdu námsefnið fyrir SAFT. SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vakningarverkefni á vegum Heimilis og skóla um jákvæða og örugga notkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum. Námsefnið sem SAFT gefur nú út er viðbót við það efni sem verkefnið dreifði í grunnskóla landsins vorið 2005 og ætlað var 4. – 6. bekkjum. (Sjá www.saft.is). Tvær kennslueiningar Um er að ræða tvær kennslueiningar ætlaðar bæði mið- og unglingastigi. Eru þær byggðar þannig upp að kennarar geta auðveldlega notað þær sem grunn í kennslu í mismunandi árgöngum og fögum. Önnur einingin snýr að siðferði, samskiptum og umgengnisháttum í notkun Netsins. Hin einingin fjallar um gagnrýna netnotkun, m.a. notkun heimilda af Netinu, hvernig hægt er að meta trúverðugleika þeirra. Siðferði á Netinu Hér er fjallað hvernig við notum Netið, helstu samskiptaleiðir og umgengnishætti og hegðun gagnvart öðru fólki. Miðað er við að hægt sé að nota eininguna bæði á mið- og unglingastigi. Rætt er um blogg, spjall, farsíma og tölvupóst og lögð fyrir nemendur verkefni sem hvetja þau til að hugsa um hvers eðlis Netið er og hvað þau þurfa að hafa í huga í samskiptum við aðra. Lögð er áhersla á að Netið er galopinn og opinber vettvangur og að allt sem þar er sett inn er opið fyrir alla. Lögð eru verkefni fyrir nemendur og skapaðar umræður um þessa þætti í nemendahópnum. Kennarar hafa mjög marga möguleika til að notfæra sér þessa einingu og auðvelt er að taka einstaka hluta hennar út úr. Með námsefninu eru góðar leiðbeiningar til kennara og tillögur um hvernig hægt er að leggja það fyrir. Gagnrýnin netnotkun Í námseiningunni er lögð áhersla á upp- lýsinga- og heimildaleit og hvað þarf að hafa í huga þegar notaðar eru heimildir af Netinu. Nemendum er kennt að umgangast miðilinn á vakandi og gagnrýninn hátt, leiðbeint um hvernig hægt er að meta trúverðugleika upplýsinga á Netinu og hvernig fara skuli með heimildir sem fengnar eru þaðan, t.d. í ritgerðasmíð. Einnig er rætt við nemendur um nauðsyn þess að vera vakandi fyrir því hvaða upplýsingar þeir gefa um sig á Netinu og hverjir vilja fá upplýsingar um þau og í hvaða tilgangi. Þessi eining er einnig hugsuð til notkunar bæði á mið- og unglingastigi grunnskóla. Góðar leiðbeiningar og tillögur um fyrirlögn fylgja einingunni. Áríðandi umræða Börn og unglingar eru mörg mjög virkir netnotendur. Samskipti þeirra fara að miklu leyti fram í gegnum Netið og einnig eru mörg þeirra með bloggsíður, eða dagbækur, á Netinu þar sem þau segja frá sjálfum sér og miðla ýmsu efni. Talsvert hefur verið rætt um ýmsar neikvæðar hliðar á Netinu, svo sem einelti og ásókn óæskilegra einstaklinga eftir kynnum við börn. Einnig hefur umræðan snúist um að almennt viðurkenndar reglur um kurteisi og tillitssemi í mannlegum samskiptum hafi ekki færst yfir á samskipti á Netinu. Með þessu nýja námsefni er leitast við að skapa umræðu um þessa hluti í skólaumhverfinu og meðal barnanna sjálfra þar sem þau geta á skemmtilegan og áhugavekjandi hátt velt ýmsum hliðum netnotkunar og mannlegra samskipta fyrir sér. Kennarar eru hvattir til að kynna sér þetta efni og nýta það til skemmtilegrar og uppbyggilegrar umræðu við nemendur sína um þennan miðil sem er sívaxandi og æ mikilvægari þáttur í námi, lífi og störfum fólks. Anna Margrét Sigurðardóttir Höfundur er verkefnastjóri SAFT SIÐFERÐI Á NETINU OG GAGNRÝNIN NETNOTKUN Nýtt námsefni samið af kennurum við Langholtsskóla

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.