Skólavarðan - 01.12.2011, Page 21

Skólavarðan - 01.12.2011, Page 21
21 Skólavarðan 3.tbl. 2011 Einhæf kennsla? Að sögn Önnu og Kristrúnar benda ýmsar rannsóknir til þess að kennsluhættir hér á landi séu fremur einhæfir. Í því sambandi megi nefna rannsókn sem Hafsteinn Karlsson gerði á kennsluháttum í íslenskum og finnskum grunnskólum 2006-2007, en þar komi einmitt fram að ríkjandi kennsluhættir eru fremur hefðbundnir. Kennarinn byrji yfirleitt kennslustund á stuttum fyrirlestri og síðan vinni nem- endur í vinnubókum sínum. „Óhefðbundnar kennsluaðferðir eru ekki nýjar af nálinni. Helstu sérfræðingar, sem margar námskenningar eru byggðar á, fjalla um það hvernig einstaklingurinn lærir og hvaða leiðir eru taldar bestar til að nám eigi sér stað. Ljóst er að þessu er misjafn- lega farið eftir því hvaða skóli eða kennari á í hlut. Kennsluaðferðir hafa sem betur fer orðið fjölbreyttari síðastliðinn áratug og aukin krafa gerð um starfshæfni og menntun kennara,“ segja systurnar. Þurfum að sleppa höndinni af „öruggu“ aðferðunum Af viðtölum við nemendur að dæma þá finnst þeim töluvert vanta upp á að þeir fái að tjá sig og að taka meiri þátt í kennslustundum. „Þeir virðast vera opnir fyrir því að prófa nýjar leiðir og aðferðir,“ segir Kristrún. „Þeir vilja vinna meira krefjandi verkefni og eftir sínu höfði. Nemendur eru áhugasamir, en svo virðist sem þörf sé á að finna leiðir til að virkja betur þennan áhuga þeirra, kraftinn sem býr innra með þeim. Ef til vill gera kennarar ekki nóg af því að nýta sér fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til nemenda. Sumir hafa gert það og standa sig vel en það er spurning hvort nóg sé að gert. Þá er einnig mikilvægt að kennarar endurmeti sig og sína frammistöðu, spyrji sjálfa sig hvort þeir séu að ná því fram sem þeir vilji ná fram.“ „Kennarar þurfa að vera tilbúnir til að sleppa takinu á þessum hefð- bundnu „öruggu“ aðferðum ef þær eru ekki að virka,“ bætir Anna við. „Fjölbreyttir kennsluhættir hafa fjölmarga kosti. Þeir ýta undir sjálf- stæði, metnað og virkni nemenda og gera þeim betur kleift að muna námsefnið. Þeir eru líka til þess fallnir að ná betur til nemenda sem annars eru áhugalausir og óvirkir í námi.“ Móta stefnu til að auka félagsfærni Anna og Kristrún segja skóla verða að móta sér ákveðna stefnu hvað félagsfærni nemenda varðar. Það sé ekki nóg að vera með fögur og flott fyrirheit í skólanámskrá heldur verði að fara markvisst eftir þeim. „Ef vel á að vera, þá verður félagsfærni að vera samofin í öllu skólastarfinu. Félagsfærni er þáttur sem þarf stöðugt að efla og þjálfa og hafa að almennu leiðarljósi í allri skólagöngu barnsins. Skólinn gegnir þar ábyrgðamiklu hlutverki. Hann á ekki eingöngu að skila af sér nemendum sem eru vel inn í námsefninu, heldur eiga þeir einnig að hafa öðlast annars konar hæfni, þar á meðal þennan mikilvæga þátt sem félagsfærni er.“ „Það eru eiginlega alltaf þeir sömu sem taka þátt í umræðum. Kennarinn spyr stundum spurninga úr efninu. Stundum finnst mér hann koma með of mikið af sínum eigin skoðunum. Það koma tímar sem hann hefur alveg misst sig og talar þá út í eitt. Þá sitjum við bara og hlustum.“ „Sumir kennarar eru svo neikvæðir og vilja alltaf gera allt eins. Stundum myndi ég vilja fá meira frelsi þegar ég er að gera verkefni. Ég hef mínar hugmyndir en ég má ekki fara eftir því, vegna þess að það eiga allir að gera eins.“ „Ég var einu sinni með frábæran kennara sem var ekki fastur í einhverju svona bulli. Hann leyfði okkur að gera hlutina eins og við vildum og svo var hann alltaf að hrósa okkur. Mér fannst það frábært, þá vildi ég líka standa mig betur. Mér finnst að margir kennarar mættu alveg vera jákvæðari og hrósa nemendum. Það skiptir mig alla vega miklu máli að fá stundum hrós.“ kennsluhættir

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.