Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 56
A n a M a r í a M a t u t e
56 TMM 2006 · 4
Mariana heyrði reyndar hvernig regndroparnir féllu á hurðina.
Stórir, hljóðlátir regndropar sem boðuðu aðsteðjandi óveður.
– Ég er ein heima, sagði Mariana þurr á manninn. – Ég á við …
ég vil ekki hafa ókunnuga í húsinu þegar maðurinn minn er að
heiman. Farðu nú og Guð blessi þig.
En flækingurinn stóð sem fastast og horfði á hana. Hann setti
upp hattinn hægt og rólega og sagði:
– Ég er vesæll maður og gamall, frú mín. Ég hef aldrei gert
nokkrum manni mein. Og ekki er það mikið sem ég bið um,
brauðbiti …
Í þeim svifum komu þjónustustúlkurnar tvær, þær Marcelina
og Salome, hlaupandi inn úr garðinum, blaðskellandi með svunt-
urnar yfir höfðinu. Mariana fann fyrir einkennilegum létti þegar
hún sá þær.
– Jæja, þá það … sagði hún, – en aðeins í nótt. Í fyrramálið
þegar ég kem niður vil ég að þú verðir farinn …
Gamli maðurinn bugtaði sig og brosti og þakkaði fyrir með
kynlegri þakkaromsu.
Mariana fór upp til sín og í háttinn. Um nóttina lamdi storm-
urinn gluggana í herberginu og henni varð ekki svefnsamt.
Morguninn eftir þegar hún kom niður í eldhúsið sló klukkan
yfir kommóðunni átta. Samstundis varð hún bæði undrandi og
gröm. Flækingurinn sat hinn rólegasti við borðið, úthvíldur og
snæddi vænan morgunverð: egg, þykka mjúka brauðsneið, vín …
Mariana fann hvernig heiftin blossaði upp í henni, heift sem var ef
til vill eitthvað óttablandin. Hún sneri sér að Salome sem vann
heimilisstörfin af alúð og yfirvegun.
– Salome! sagði hún, og henni fannst rödd sín hvöss og hörð. –
Hver sagði þér að gefa þessum manni … hvers vegna fór hann ekki
strax í bítið? Henni vafðist tunga um tönn vegna reiðinnar sem var
að ná tökum á henni. Salome varð svo hissa að það lak á gólfið úr
sleifinni sem hún hélt á.
– En ég …, svaraði hún. – Hann sagði mér …
Flækingurinn, sem nú var staðinn á fætur, þurrkaði varlega á
sér varirnar með erminni.
– Frú mín, sagði hann, – munið þér ekki, frú mín … að þér
sögðuð í gærkvöldi: „Látið gamla vesalinginn fá rúmið á háaloft-