Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Qupperneq 60
A n a M a r í a M a t u t e
60 TMM 2006 · 4
– Gott og vel, sagði hann, – ég skal fara. En hann á eftir að kom-
ast að öllu …
Mariana þagði. Ef til vill var hún orðin enn fölari. Skyndilega
setti dálítinn ugg að manninum: „Hún gæti tekið upp á einhverju
alvarlegu. Já, hún var af þeirri gerðinni sem gæti hengt sig uppi í
tré eða eitthvað álíka.“ Hann fann til meðaumkunar: hún var enn
ung og falleg.
– Jæja þá, sagði hann, – frúin hefur borið sigur af hólmi. Ég er
á förum … hvað er við því að gera? Í sannleika sagt gerði ég mér
aldrei of miklar vonir … Auðvitað naut ég veru minnar hér og ég
mun ekki gleyma kássunum hennar Salome eða víni húsbóndans
… Því gleymi ég ekki, en nú er ég á förum.
– Og það samstundis, sagði hún snöggt. – Farðu strax … og vilj-
irðu ná honum geturðu tekið til fótanna! Þú getur tekið til fótanna
með þessar sögur þínar, gamli hundurinn þinn …
Flækingurinn brosti alúðlega. Hann tók skjóðu sína og staf.
Þegar hann var að fara út um hliðið sneri hann sér skyndilega við
og sagði:
– Auðvitað, góða mín, sá ég ekki neitt. Ég veit ekki einu sinni
hvort nokkuð var að sjá. En ég hef verið árum saman á ferðinni, já,
svo árum skiptir! Og ég get sagt þér að það er ekki nokkur mann-
eskja í heiminum með hreina samvisku, jafnvel ekki blessuð börn-
in! Nei, ekki einu sinni börnin. Horfi maður í augun á barni og
segi: „Ég veit allt um það, gættu að þér …“ þá er barnið farið að
skjálfa. Skjálfa eins og þú, góða mín.
Mariana fann eitthvað sérkennilegt, líkt og brest í hjartanu.
Hún vissi ekki hvort það var beiskja eða villt kæti, það vissi hún
ekki. Hún hreyfði varirnar og ætlaði að segja eitthvað en gamli
flækingurinn lokaði hliðinu og leit aftur á hana. Bros hans var ill-
kvittnislegt þegar hann sagði:
– Eitt ráð, góða mín. Vaktu yfir honum Antonio þínum. Hús-
bóndinn hefur vissulega líka ástæðu til að leyfa gömlum ölmusu-
manni að skemmta sér í húsum sínum. Ærna ástæðu þori ég að
segja, af augnatilliti hans að dæma!
Þokan þéttist og lagðist yfir veginn. Mariana sá hann halda af
stað og hverfa inn í þokuna.
Kristín Guðrún Jónsdóttir þýddi