Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 86
G í s l i S i g u r ð s s o n
86 TMM 2006 · 4
þjónustu o.s.frv. Um þessa nýbreytni hefur Þórey Selma Sverrisdóttir
ritað BA-ritgerðina „Allt of fáir voru að leika eins og þeir geta best“. Þar
rannsakar hún notkun sambandsins vera að + nafnháttur í íþróttafrétt-
um en segja má að mörg séu að hafa áhyggjur af því málfari.
Það hefur talist eðlilegt í íslensku að nota vera að með nafnhætti til að
lýsa aðgerð sem tekur tíma: Ég var að lesa þegar þú komst. Einnig til að
lýsa breytingu: Hann er að hvessa. Og lét Einar Ól. Sveinsson sér detta í
hug að þetta gæti tengst sams konar framsetningu í fornírsku. Það hefur
einnig verið skýrt að ekki er hægt að nota vera að með öllum sagnorðum
og hafa Höskuldur Þráinsson og fleiri málfræðingar glímt við að skil-
greina hvar mörkin liggi. Kerfið sem var er þó greinilega að riðlast og í
ritgerð Þóreyjar rekur hún breytinguna með dæmum úr Morgunblaðinu
frá 1991–2000. Á þessum árum víkkar notkunarsviðið greinilega þann-
ig að það er ekki bundið við aðgerð sem tekur tíma eða sagnir sem lýsa
breytingu, og farið er að nota lýsandi orð á borð við vel og skemmtilega
með nafnhættinum – sem var áður talið ótækt mál. Útbreiðslan er orðin
slík að enginn íþróttamaður segir lengur: „Við spiluðum vel í fyrri hálf-
leik“ heldur alltaf: „Við vorum að spila vel“. Hér er því greinileg mál-
breyting á ferð, hugsanlega undir erlendum áhrifum en þó útfrá for-
sendum sem fyrir eru í málinu. Oftast nær þvælir hún framsetningu
hugsunarinnar og telst því tæpast til fegurðarauka fyrir málfar manna.
Þetta atriði vekur upp þá eilífðarspurningu hvernig hægt sé að fella
fegurðardóma yfir tungumáli manna, nú þegar þær einfeldningslegu
raddir heyrast að málvöndun sé angi af íslenskri þjóðernisstefnu og því
mjög gamaldags á dögum Evrópusamruna. Þá er á það að líta að mál-
vöndun er ævafornt keppikefli meðal þeirra sem nota tungumál, hvort
sem er til að skemmta, fræða eða fá fólk til að lúta valdi og fylgja tiltekn-
um málstað. Þau algildu viðmið sem málvöndun byggist á eru ekki bund-
in við einstök tungumál. Fjölbreytni í máli er til dæmis hvarvetna lykil-
atriði. Sá eða sú sem vill ná eyrum fólks verður að nota öll blæbrigði
beygingarkerfis og orðaforða síns tungumáls og sýna þannig vald sitt á
miðlinum. Skýrleiki í framsetningu er ekki síður til bóta, að menn forðist
aukaorð, innskot og humm og ha sem hafa enga merkingu en tefja bara
fyrir miðlun hugsunar á milli manna. Nýsköpun og leikur með tungu-
málið skera svo yfirleitt endanlega úr um það hvort fólk er áheyrilegt eða
ekki. Þau sem renna ævinlega eina og sömu slóð í máli sínu, byrja setn-
ingar þannig að áheyrendur geti sér til um framhaldið í stirðnuðum
orðasamböndum geta ekki vænst þess að fólk hlusti mjög lengi. Þessi þrjú
lykilatriði valda því að það er bara ekki að ganga að vera að samþykkja
það sem tækt mál að vera alltaf að gera allt sem við gerum.