Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 87
Í s l e n s k m á l p ó l i t í k
TMM 2006 · 4 87
Enskugrýlan hættulegri en Rússagrýlan
Svo er vökulum hagleiksmönnum á einstök orð fyrir að þakka að
íslenskan hefur gert sér nútímann undirgefinn. Hún hefur lagað tækni,
nýjungar og hugmyndir að málkerfi sínu fremur en að taka upp þau orð
lítt breytt sem tíðkast í flestum nágrannamálum okkar. Okkur þykir
betra að þurfa ekki að dræva á karinu heim til að horfa á tíví á víkendinu
og opna prógrammið í kompjúternum um leið og fónið hringir – sem
þykir þó allt frambærileg iðja á vesturíslensku.
Þegar við förum í sérstakt hátíðarskap og viljum hugsa hlýlega til
íslenskrar tungu og gæta að velferð hennar verður fljótlega á vegi okkar
ógnvaldur sem hefur sömu stöðu gagnvart tungunni og sauðkindin
gagnvart landinu. Þessi ógnvaldur er enskan. Hún sækir að málinu úr
öllum áttum, úr dægurlögum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, og er
svo áberandi í íslensku þjóðlífi að við erum eins og lítið eyland í enska
málhafinu þar sem ekki sést til annarra málsvæða. Við fáum jafnvel á
tilfinninguna að enskan sé alþjóðleg og að allar þjóðir heims, nema við,
tali ensku. Þetta nær svo langt að í fréttum íslenskra fjölmiðla er stund-
um vitnað til þess að leiðtogar þjóða heims hafi eitt og annað að segja
um stórviðburði í veröldinni og séu sammála í afstöðu sinni. Og þessir
leiðtogar þjóða heims eru Bandaríkjaforseti og forsætisráðherra Breta.
Afþreying okkar er flutt á ensku, þekking okkar er sótt til bóka og
tímarita á ensku og því er ekki nema von að efast sé um að íslenskan lifi
aðsóknina af; þetta tungumál sem þrjú hundruð þúsund sálir eru að
berjast við að tala sín á milli í kapp við alltumlykjandi ensku. Við höfum
unnið áfangasigra og flutt málið með okkur úr sveitunum inn í tækni-
vætt borgarsamfélag þar sem við höfum látið það takast á við hvaðeina
í nútímanum. Við höfum tekið á móti nýjungum í atvinnuháttum og
talað um þær á íslensku án þess að grípa þá erlendu orðstofna sem nýj-
ungunum fylgja og bæta við þá íslenskum beygingarendingum. Við
höfum þráast við, og hugsað ný orð á íslensku sem lýsa hinum nýju fyrir-
bærum. Og það er alls ekki sjálfsagt að tungumál taki á móti nýjungum
með nýjum orðum. Yfirleitt er reglan sú að orð flytjist á milli málsvæða
með þeim hlutum sem þau lýsa. Það gerðist hér á öldum áður þegar
kirkjan og bókmenningin komu með orðaforða á sínu sviði, eins og
orðin kirkja og bók, sem landsmenn ginu við og eru nú talin til ágætrar
íslensku. En nú er öldin önnur og íslenskt mál liti efalaust allt öðru vísi
út ef við hefðum látið tuttugustu öldina ganga yfir tungumálið með
sama hætti og kristni og kirkja gerðu eftir árið 1000.
Og „á þessum erfiðu tímum í efnahagslífi þjóðarinnar“ undanfarin