Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Qupperneq 109
Kv i k m y n d i r
TMM 2006 · 4 109
mynd um. Eftir brúðkaupið fjallar um ábyrgð, ást, tryggð og dauða – stórar
tilfinningar sem Susanne ýkir enn frekar með ágengu myndmáli. Myndavélin
dvelur í sífellu við augu sem fyllast af tárum, fingur sem strýkur yfir vanga,
munnvik sem titra o.s.frv. Þrátt fyrir góðan leik og á margan hátt áhugaverða
sögu fór kvikmyndin öfugt ofaní suma sem fannst hún vera unnin upp úr
rauðum ástarsögum og Bier tína tilfinningar eins og hvítar kanínur upp úr
hatti, á meðan aðrir töldu hana gefa raunsanna mynd af því hvernig maður eins
og Jörgen tekst á við eigin dauðleika.
Hin danska myndin, Offscreen, eftir Christoffer Boe var djarft innlegg í
þennan sarp þar sem mörk skáldskapar og veruleika eru svo til þurrkuð út.
Leikarinn Nicolas Bro leikur sjálfan sig (!), þekktan leikara í Kaupmannahöfn
sem ákveður að gera heimildamynd um líf sitt og kærustu sinnar sem honum
finnst hann vera að missa. Myndin á að verða heimild um ást hans á henni. Bro
ferðast um með litla stafræna kvikmyndatökuvél sem hann slekkur aldrei á og
hrindir smám saman öllum frá sér, kærustu, vinum og starfsfélögum og stend-
ur að lokum einn og al-galinn. Mitt í öllum raunveruleikaþáttunum sem
tröllríða sjónvarpsstöðum um allan heim var sannarlega athyglisvert að horfa
á Offscreen – en ekkert sérstaklega skemmtilegt.
Frá Íslandi komu myndirnar Blóðbönd eftir Árna Ólaf Ásgeirsson og A little
trip to heaven eftir Baltasar Kormák. Ég geri ráð fyrir að lesendur þekki báðar
myndirnar mætavel og læt því nægja að segja að báðum var býsna vel tekið, þó
svo að mönnum þætti mynd Baltasars Kormáks varla eiga heima í þessu sam-
hengi norrænna kvikmynda. Svo fannst sérstaklega Dönum fjölskyldan í
Blóðböndum tala og gráta of lítið.
Framlag Svía var afar sterkt í ár en þeir sendu, auk sigurmyndarinnar Zozo,
fjölskyldudramað Mun mot mun (Munnur við munn) eftir Björn Runge sem
leiðir áhorfandann til helvítis, en gefur honum sem betur fer vonarglætu í
lokin um að komast aftur heim. Mats og Eva eru óhamingjusöm hjón og for-
eldrar þriggja barna. Elsta dóttirin, sem verður 18 ára í myndinni, er flutt að
heiman og býr með melludólgi og eiturlyfjasala sem selur hana til að eiga fyrir
eigin neyslu. Miðbarnið er táningssonur sem lokar sig inni með tölvunni sinni
en er skotinn í stúlku sem býr við jafnvonlausar heimilisaðstæður og hann
sjálfur. Yngsta dóttirin passar sig á því að vera alltaf óskaplega þæg og góð og
leikstýrir lífi sínu í barbíleikjum þar sem andlit fjölskyldu hennar eru límd á
barbíhöfuðin. Hryllingur og sorg einkenna myndina og hún er nánast óþægi-
lega vel skrifuð. Hver einasta persóna er ekta og sársauki hennar skiljanlegur.
Sennilega væri myndin óbærileg ef fjölskyldufaðirinn tæki ekki ábyrgð á
ástandinu og gerði tilraun til að endurheimta dóttur sína úr klóm djöfulsins.
Sú tilraun mistekst reyndar því stúlkan ein getur bjargað sjálfri sér, en áhorf-
andinn er skilinn eftir með þá von að hún hafi einmitt gert það.
Margar ofangreindra mynda fjalla um vandamál norrænna samfélaga, og fókus-
inn er oft á foreldra og börn, ábyrgð og svik. Sigurvegarinn Zozo fer hinsvegar
lengra og minnir okkur á heiminn handan við velferðarríkin í norðri. Zozo er,