Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Qupperneq 113
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 113
legum toga. Fyrrverandi forstjóri Prjónastofunnar hefur ástríðu fyrir latínu og
stjörnuskoðun, hann „dreymir á latínu, breytist í Stjörnufræðinginn, fórnar
jeppa, húsi, konu, fjölskyldulífi, glæstum frama en fær í staðinn himininn og
fáeinar gamlar bækur“ (18). Ágústa á pósthúsinu getur ekki látið það vera að
gægjast í bréf þorpsbúa þótt það munaði ekki nema „fingurbreidd eða svo“ að
hún „missti starfið og æruna“ (25). Hin harðgiftu Kjartan á Sámsstöðum og
Kristín á Valþúfu geta ekki hamið kynhvöt sína þegar þau hittast úti á víða-
vangi – hún að skokka, hann að reka niður girðingarstaura – og þótt varla sé
hægt að segja að þau eigi í „ástarsambandi“ kallar bríminn á endurtekna fundi.
Slíkar óviðráðanlegar ástríður krydda frásögnina sem sífellt vegur salt á milli
hins skoplega og harmræna í mannlegri tilveru. „Ég vildi að þú hefðir verið
dauðvona,“ hugsar Ásdís, eiginkona Kjartans á Sámsstöðum, þegar hún horfir
á eiginmann sinn eftir að hún hefur komist að framhjáhaldinu:
Magakrabbi, hugsar hún, það hefði farið þér vel, ristilkrabbi líka, beinkrabbi samt
það allra besta. Með tímanum hefði ekkert lyf, ekki einu sinni morfín, náð að deyfa
sársaukann nægilega, hann hefði molað viljann og persónuleikann niður í smátt.
Ástin mín, þú hefðir legið í rúminu, stunið, öskrað, grátið og síðan dáið. Og ég hefði
hjúkrað þér og síðan getað syrgt þig. (107)
Jón Kalman hefur víða náð að skapa ógleymanlegar persónur í þessari bók og
sögurnar af vonum þeirra og vonbrigðum, hamingju þeirra og örvæntingu
hljóta að snerta alla þá sem lesa.
Jón Kalman hefur áður sýnt að honum er lagið að skapa persónur sem koma
lesanda við og að hann kann þá list að spinna úr hversdagslífinu sögur sem
hefja sig upp yfir „hversdagsleikann“. Í Sumarljós og svo kemur nóttin er það
þó kannski fyrst og fremst stíllinn sem heillar. Að lýsa honum sem ljóðrænum
prósa nær ekki alveg utan um aðferðina; frásagnartextinn leysist reyndar víða
upp í setningar sem minna fremur á ljóð en lausamál og myndrænar líkingar
eru víða fyrirferðarmiklar. En það sem kryddar þennan texta og gerir hann
eins skemmtilegan aflestrar og raun ber vitni er ekki síst stílbragðið sem kennt
er við ýkjur og kemur víða við sögu en fer þó sjaldnast yfir strikið. Af einstöku
næmi fyrir ljóðrænum eiginleikum tungumálsins, skilningi á öllum hliðum
mannlegrar tilveru og mátulegum ýkjum hefur Jón Kalman skrifað logandi
skemmtilega bók með sögum sem koma sífellt á óvart og kalla á endurtekinn
lestur.
Tilvísun
1 Sölvi Björn Sigurðsson. „Um skáldskap Jóns Kalmans Stefánssonar.“ Bókmennta-
vefur Borgarbókasafnsins, www.bokmenntir.is (síða skoðuð 10. október 2006).