Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 119
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 119
að þeim? Sambandið einkennist af vana og þreytu þar sem báðir aðilar bæla
tilfinningar sínar. Í „Teljósum“ eru maðurinn og konan löngu hætt að tala
saman og hvorugt lætur þrár sínar eða vonbrigði í ljós. „Að heyra blýant detta“
segir frá hjónum á ferðalagi en á milli þeirra er einhver fjarlægð sem orsakast
af skilningsleysi og höfnun. Óútskýrður, kæfður grátur heyrist í báðum þess-
um sögum.
Aftur á móti ríkir nánd og samruni hjá gömlu hjónunum í „Draumagleraug-
unum“:
Honum varð ljóst að hann var kominn inn í draum konu sinnar, sem enn lá á stofu-
sófanum. Þá sá hann í fyrsta sinn að enginn er fjarlægur öðrum í raun og veru, ekki
einu sinni hjón sem hafa búið lengi saman. Allir draumar tengjast á jöðrum, einsog
bútasaumsteppi. Hann tók um sængurvershornið í svefninum og fægði gleraugun
áður en hann hélt áfram, að þessum miklu jarðeplagörðum, lengra inn í drauminn
hennar sem hann hafði þekkt í svo mörg ár (116).
Sagan er bæði ljóðræn og falleg og sameinar tvö algeng minni í verkum Gyrð-
is, drauma og gleraugu. Draumar koma mikið við sögu í Steintré, s.s. í „Eilífs-
dal“, „Keðjuverkun“, „Að heyra blýant detta“, „Skrifherberginu“, „Flugleiðinni
til Halmstad“, „Berjasaftinni“, „Flyglakaupmanninum“ og „Vetrarhóteli“. Í
draumunum eru fólgnir fyrirboðar um feigð og endalok – eða upphaf að ein-
hverju nýju. Fyrirboðar eru líka algengir í höfundarverki Gyrðis og dæmi má
taka úr „Berjasaftinni“. Þar segir frá tveimur bóksölum sem gista í ókunnu
húsi og annar þeirra, Guðbjörn, deyr um nóttina. Strax í upphafi sögu minnir
Guðbjörn á útfararstjóra þar sem hann opnar hliðið og yfir rúminu hans hang-
ir málverk af frelsaranum sem á er skrifað „Komið til mín“ (96). Feigð svífur
yfir vötnum í „Homo pastoralis“, aðalpersónan er eldri maður, gistir í fölbláu
húsi, nýkominn af spítala og höktir um á hækjum. Hann á stutt eftir því þegar
hann fær skyndilega áhuga á að kaupa sér hús hleypur svartur hundur í veg
fyrir hann (112). Reyndar er hann ekki alveg viss um hvort hann er lífs eða lið-
inn en það er annað minni í verkum Gyrðis.
Draugar og forynjur reka víða fram sinn ljóta haus, t.d. í „Berjasaftinni“ en
þar birtist óhugnanlegur gamall og lotinn maður með skaröxi, augnalaus og
þögull (99) og í „Bílhræinu“ situr einhver ófreskja, snörlandi og urrandi, föst í
rytjum af bílbelti. Í „Vetrarhóteli“ segir frá einmana pilti sem finnur fyrir ann-
arlegri nærveru, „full einsemdar og feigðar og alröng hér í þessu herbergi, hjá
mér í þessu myrkri“ (83–4). Rithöfundur í Hveragerði rumskar við torkennileg
hljóð í „Keðjuverkun“, skruðningar og dynkir frá votum stígvélum berast af
loftinu sem er farið að leka enda hafði hann dreymt að hann væri inni í köf-
unarkúlu. Og hundar koma við sögu, heljarstór Bernharðshundur birtist bæði
í draumi og vöku í „Skrifherberginu“, grimmur Séfer og Dóberman rífa niður
notalega stemningu sem var að myndast milli hjóna í gönguferð (77, „Týnda
Grimmsævintýrið“) og m.a.s. sjálfur Baskervillehundurinn eða annað dýr
með kolsvartan feld og furðulega kryppu skýtur upp kolli í draumi flyglakaup-
mannsins (101).