Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 120
B ó k m e n n t i r
120 TMM 2006 · 4
Sögurnar í Steintré gerast jafnan úti á landi, t.d. í Hveragerði og á Siglufirði.
Húsin standa ein, efst í brekku, undir fjallshlíð, eru innan við bæinn eða
utarlega í byggðinni, bakhús eða eyðibýli á heimsenda, oft ætluð aðeins til
skemmri dvalar. Í „Heimurinn er einn“ hefur eitthvað dularfullt gerst, húsin
hafa verið eyðilögð, hálfhrunin og auð, á sum vantar þak og rúður eru brotnar,
hurðir farnar af hjörum og gluggatóftir skuggalegar í rökkrinu (sbr. 49–50). Í
gistihúsum og hótelum ber jafnan eitthvað undarlegt við og líf gestanna tekur
breytingum. Gróðurhús koma fyrir í nokkrum sögum, þar renna saman gler
og dulúð, þau eru raflýst mannvirki utan um framandi plöntur í birtu og yl,
fyrir utan er kuldinn og myrkrið. Þau eru „einkennilega upphafin og ójarðnesk
og minna á glerhýsin miklu á þokuhjúpaðri reikistjörnu í sólkerfinu L-5“ (109).
Gler, heilt og brotið, er áberandi í myndmáli Gyrðis og hefur margs konar
bókmenntalega skírskotun.
Fjórar sögur tengjast bernsku eða segja frá börnum en Gyrðir hefur í verk-
um sínum kafað dýpra en aðrir í heim bernskunnar á sinn sérstæða, fágaða og
margræða hátt. Áður hefur „Bílhræið“ verið nefnt en þar fær auðugt ímynd-
unarafl byr undir báða vængi, eða hvað? Geta tvær telpur heyrt og séð sömu
sýn, sömu óhugnanlegu ófreskjuna? „Píanóið“ er áhrifamikil saga sem minnir
á skáldskap Kafka. Í henni birtast togstreita milli föður og sonar, skilningsleysi
móður og þögul uppreisn sonar. „Trésmíðaverkstæðið“ er örstutt, falleg og
ljóðræn saga um dauða litlu systur, brostnar vonir og „himnastiga úr orðum“.
Sagan hefur yfir sér mildan, kristilegan blæ; m.a. vegna Biblíunafnanna og
krossins sem mislangar spýtur mynda. Í „Fuglaveiðum“ fer drengur sínu fram
þrátt fyrir þreytuleg mótmæli móðurinnar en faðirinn er hvergi sjáanlegur.
Iðja hans, að drepa fugla, virðist blandin bæði dráps- og fróðleiksfýsn en hann
safnar fuglunum til að senda til fuglafræðings síðar. Þegar hann gengur frá
fuglinum á sinn stað er senan eins og beint úr hryllingsmynd:
Drengurinn staldraði andartak við þarna í skuggsælu búrinu og leit yfir hillurnar,
andaði að sér lykt sem var blanda af óteljandi gerðum matvæla og kryddjurta. Síðan
opnaði hann gömlu og risastóru Westinghouse frystikistuna.
Ofan í henni var fjöldi flækingsfugla, sem allir voru vafðir inn í Morgunblaðið
einsog bókfinkan. Það glitti í hélaða hausa og gogga í daufri skímu sem kviknaði í
kistunni þegar hún var opnuð. Peran var alveg að gefa sig, ljósið flökti og dofnaði
stundum alveg. En stopull bjarminn nægði til að lesa löngu gleymdar fyrirsagnir
blaðsins, sumar nokkurra ára gamlar.
Drengurinn hagræddi volgum innpökkuðum fuglinum ofan á þessum hlaða af
helfrosnum systkinum hans sem lágu í kistunni. Svo lokaði hann kistunni hægt, einsog
þegar útfararstjóri lokar líkkistu í hinsta sinn (42).
Ljósið úr frystikistunni er eins og ljósið úr ísskápnum í „Berjasaftinni“, sem
blikkaði látlaust og óreglulega, líkast því að verið væri að morsa mikilvæg
skilaboð (95) sem enginn skilur. Ljós og myrkur takast alltaf á í verkum Gyrð-
is, líf og dauði, draumur og veruleiki. Það hljómar kannski klisjulega, en hjá
Gyrði eru þetta aldrei klisjur. Stíll hans er einstakur, hreinn og tær, undarlegt