Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Síða 7
A ð þ ý ð a J ó n a s m e ð s t u ð l u m
TMM 2007 · 1 7
að ég hef enga trú á því að hann hafi ímyndað sér að elskendur héldu
áfram að elska hvort annað út yfir gröf og dauða. En þetta er satt í ljóð-
inu. Um leið er þetta ekta dæmi um það sem verður algert klúður í
prósa: „The abyss of heaven separates the lofty planets, the blade of a
knife separates the back and the edge. But even eternity can not separate
souls that love one another.“ Þetta hljómar ekki sérlega sannfærandi í
óbundnu máli og minnir á að líklega sé fullyrðingin ósönn, þótt hún sé
sönn í ljóðinu. Mér hefur oft dottið í hug það sem Tertullian, einn af
kirkjufeðrunum, sagði: „Credo quia impossibile est.“ Ég trúi af því það
er óhugsandi. Þetta á svo vel við Jónas. Lokaerindi „Ferðaloka“ er svona
í þýðingunni minni:
The heavens part
the high planets,
blade parts back and edge;
not even eter-
nity can part
souls that are sealed in love.
Þetta ljóð heillaði mig fyrst og svo las ég fleiri, „Enginn grætur Íslend-
ing“ sem er dásamlegt kvæði og erfitt í þýðingu, ég er ekki fyllilega
sáttur við þá gerð sem er í bókinni. Ein af þeim sem ég er verulega
ánægður með er „Alsnjóa“ sem tók gríðarlega langan tíma að þýða.
Menn hafa lengi deilt um þetta kvæði og hvað það merki, en málið er að
fyrst hélt ég að ég vissi hvað það þýddi. Nú er ég ekki lengur viss. Brynj-
ólfur Pétursson skildi það ekki heldur, hann vildi ekki birta það þegar
Jónas sendi það til hans, fannst það of einkennilegt, sérstaklega mið-
erindið. Og hann birti það ekki, það komst ekki á prent fyrr en Jónas var
allur.
Þegar ég þýddi „Alsnjóa“ fyrst hélt ég sem sagt að ég vissi hvað væri á
seyði í kvæðinu; það er alltaf hættan: að maður innlimi eigin skoðanir í
þýðingarnar sínar. Auðvitað er það alltaf óhjákvæmilegt að einhverju
leyti en þá skiptir máli á hvaða stigi innlimunin er. Maður getur haft
gauðranga hugmynd um ljóð og troðið henni upp á það, maður getur líka
haft óljósa hugmynd um hvað ljóðið segir og reynt að láta það koma í
gegn í þýðingunni. Í fyrstu þýðingunni sem ég gerði meðan ég hélt að ég
skildi ljóðið gerði ég það alltof trúarlegt. Svo hélt ég áfram að liggja yfir
því, þetta er svo stórkostlegt kvæði, og ég las allar greinarnar sem höfðu
verið skrifaðar um það, sumar gáfulegar, aðrar ekki. Mér fannst Sveinn
Skorri komast næst því að skýra það fyrir mér. Síðan ákvað ég að kvæðið
væri margrætt og vísaði í svo ólíkar áttir að ég yrði að þýða það aftur og