Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 64
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
64 TMM 2007 · 1
Árið sem leið
2006 – hvernig ár var það? Gott en fremur stillt í menningarefnum. Engin
reginhneyksli svo ég muni en margt minnisstætt.
Af mörgum góðum leiksýningum er Pétur Gautur skýrastur í minningunni.
Alveg er makalaust hvað þetta 150 ára gamla leikverk hefur sterka skírskotun
til samtímans, að minnsta kosti þegar sannir nútímamenn véla um það.
Baltasar Kormákur leikstjóri sá samtímann í texta Ibsens, eins og Ostermeier í
Berlín, og valdi þess vegna að setja hann á svið. Enda varð sýningin markviss
og sterk og fór óvænt að kallast á við höfunda eins og Jean-Paul Sartre og aðra
existensíalista. Til hvers fæðist maður eins og Pétur, hvaða tilverurétt á hann?
Það er ekki ófyrirsynju sem fræðimenn eru farnir að stilla Ibsen upp við hlið
jöfursins Shakespeares, eins og Toril Moi gerir í bók sinni Henrik Ibsen and the
Birth of Modernism (Oxford University Press, 2006) Aðrar fínar sýningar voru
Fagnaður Pinters í Þjóðleikhúsinu, Maríubjallan eftir Vasílij Sígarjov hjá Leik-
félagi Akureyrar, Sumardagur Jons Fosse í Þjóðleikhúsinu, Penetreitor eftir
Anthony Neilson í Sjóminjasafninu (Vér morðingjar), Mr. Skallagrímsson
Benedikts Erlingssonar í Borgarnesi og tvö tilraunaverk Jóns Atla Jónassonar,
Mindcamp í Hafnarfirði og 100 ára hús hjá frú Emilíu í tjaldi niðri við sjó!
Af myndlistarsýningum er innsetning Gabríelu Friðriksdóttur lífseigust í
huganum, sú sem var framlag Íslands á tvíæringnum í Feneyjum 2005 og sett
upp í Hafnarhúsinu þegar hún kom aftur heim; þar voru forn minni sett fram
með nútímatækni og maður varð eins og barn að lifa Grimmsævintýri fyrir
framan myndbandstækin með töðuilminn í nösunum. Aðrar góðar voru und-
urfagur óður Kabakov-hjónanna til H.C. Andersen á Kjarvalsstöðum, Morg-
unn, kvöld, nótt, Málverkið eftir 1980 í Listasafni Íslands og franski expressjón-
isminn sem þar hangir uppi enn – Frelsun litarins, ljósmyndasýning Spencers
Tunicks í Listasafninu á Akureyri af nakta fólkinu, Bersvæði, og bandaríska
sýningin Uncertain States of America í Hafnarhúsinu. Hér langar mig líka að
nefna viðamestu listaverkabókina frá íslensku forlagi á árinu 2006, Mikines um
færeyska málarann Samuel Elias Joensen sem kallaði sig Mikines eftir heima-
eyju sinni, Mykines. Meginmálið um listamanninn skrifaði Aðalsteinn Ingólfs-
son listfræðingur, og Nesútgáfan gaf bókina út á færeysku, dönsku og ensku.
Þetta er afar vandað og glæsilegt verk svo að nærri jafnast á við Kjarval frá
sömu útgáfu árið 2005, enda hefur bókin fengið dúndurfínar undirtektir í Fær-
eyjum og Danmörku.
Í tónlistinni lifi ég lengst á Kammermúsíkhátíðinni á Kirkjubæjarklaustri í
ágúst, hún var fágæt upplifun enda frábærir ungir listamenn sem að henni
stóðu undir stjórn Guðrúnar Jóhönnu Ólafsdóttur. Ekki spillti að veður var
einkar gott þessa daga og unaður að kanna nágrenni Klausturs milli tónleika.
Fyrir jólin komu út á geisladiski nokkur verk sem Guðrún Jóhanna og Vík-
ingur Heiðar Ólafsson fluttu á hátíðinni, og er ástæða til að benda fólki á hann
vegna þess hvað flutningurinn er einstaklega vandaður og áhrifamikill. Meðal
annarra tónlistarviðburða eru tónleikarnir á Listahátíð með Afríkudrottning-