Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 74
B ó k m e n n t i r
74 TMM 2007 · 1
Mergurinn málsins er náttúrlega að það er afskaplega vandrataður hinn
gullni vegur milli þess að gera of litlar og of miklar kröfur til forþekkingar les-
andans. Jóhann S. Hannesson hafði einhvern tíma orð á þessu við mig og sagði
sem svo: „Það eru tvenn mistök sem eru algengust hjá kennurum: að ofmeta
þekkingu nemenda og að vanmeta þekkingu nemenda. Verst að menn gera
yfirleitt hvor tveggja mistökin samtímis.“ Þetta finnst mér núna hitta naglann
á höfuðið um alla fróðleiksritun. En það er sjálfsögð krafa að menn leggi
vandlega niður fyrir sér þegar skrifað er stórvirki eins og ÍB hvaða markhópi á
að þjóna, eða hvaða þjónustu á að veita honum.
Og fyrst minnst er á þjónustu: Rastagreinar eru orðnar sjálfsagður þáttur í
fræðibókaskrifum og eru margar í ÍB. Þær eru samt ekki alveg rökvíslega not-
aðar, þ.e.a.s. það virðist dálítið tilviljanakennt hvað er tekið fyrir þar og óljóst
hver skrifar. Stundum er það ljóslega höfundur megintexta, stundum einhver
annar: ritstjóri eða hvað? En einkanlega finnst mér aðfinnsluvert að rasta-
greinar skuli ekki kerfisbundið notaðar til að skilgreina hugtök sem notuð eru
í bókmenntasögunni. Af því málið er mér skylt og ég fékk ákúrur fyrir ónýta
skilgreiningu á póstmódernisma í námsbók, hef ég leitað með logandi ljósi að
skilgreiningu á þessu hugtaki í ÍB. Það er býsna oft notað. Til dæmis segir Jón
Yngvi: „Þetta atvik … sýnir berlega að hugtakaglíma síðnútímans, póstmód-
ernismans, hófst á sjöunda áratugnum, ef ekki miklu fyrr“ (V:496). Silja talar
um „tvíræðni póstmódernismans“ (V:409) og í Ljóðaþýðingum úr belgísku
„ægir öllu saman í anda póstmódernismans“ (V:406). Áður hefur hún nefnt að
einkenni ljóða síðustu 20 ára sé „ákveðinn tónn sem kenna má við póstmód-
ernisma. Þessi tónn einkennist af því að vera í senn einlægur og tvíræður …“
(V:400) Þetta er allt gott og blessað, bara ef við fengjum að vita hvað póstmód-
ernismi er.
Ísland og umheimurinn
Í jafn metnaðarfullu verki og Íslenskri bókmenntasögu I–V þykir mér býsna
tilviljanakennt hvenær reynt er að tengja við erlenda menningarsögu (og
reyndar íslenska líka). Í fyrstu tveim bindunum var þetta nokkuð traust og oft
vísað til mögulegra erlendra áhrifa. Þriðja bindið hentist auðvitað fram og
aftur, enda Íslandssagan með þeim hætti þá að stundum voru erlendu áhrifin
auðfengin, stundum afar fjarlæg. En með fjórða bindi er komið í nútíma.
Auðvitað kemur erlend menningarsaga oft við sögu í ÍB IV–V. En það gerist
ekki með skipulegum hætti og yfirvegun. Hefði þó verið þarft verk að skrifa
Ísland inn í umheiminn með einhverjum hætti.
Í þessu sambandi mætti nefna að úr því ákveðið var að líta á leikritun sem
textagerð (,bókmenntir’) en ekki umfram allt part af leiklistarmenningu, verð-
ur sérlega aðfinnsluvert að ekki skuli gert meira til að lesa innlenda leikritun
saman við þau þýddu leikrit sem á fjalir komu og menntun leikaranna sem áttu
að fást við þau (eða gátu fengist við þau).
Fjarska sjaldan er nefnd tónlist í ÍB og mætti þó vera nokkuð ljóst að það er