Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 113
M y n d l i s t
TMM 2007 · 1 113
flest önnur sköpun hefur þann megintilgang að skapa ný viðskiptatækifæri
eða nýja vöru yfirleitt með hagnað í huga.
Fyrirmynd frelsisins á okkar tímum er því kannski ekki lengur listamað-
urinn heldur bankamaðurinn sem svífur um haftalausan markaðsheiminn og
„skapar auðæfi“. „Sköpun“ fjármálamannsins er þó ekki tjáning, sem sést best
á því að ríkidæmi byggt á fjármunum kallar á annarskonar auðæfi sem kölluð
eru menningarauðæfi. Þar sem hluti menningarauðæfa okkar byggir á lista-
verkum hefur eftirspurn eftir slíkum verkum verið að aukast. Myndlist er farin
að seljast. Spurningin er hins vegar sú hvort fjármálamennirnir hafa jafn mikið
vit á myndlist og krónum? Um þetta ættu myndlistarmennirnir að hugsa þegar
þeir segjast vera tilbúnir að láta áhorfendum eftir að ákveða inntak verka
sinna.
Forsendur túlkunar
Hvað er ég þá að reyna að segja? Að myndlistarmenn eigi að mata verkin ofan
í áhorfendur og segja þeim hvað þeir eiga að upplifa? Segja þeim hvað þeir eiga
að sjá? Ég er ekki að segja það heldur benda á að fæstir þeir áhorfendur sem
myndlistarmenn bjóða af rausn að túlka og upplifa verk sín á eigin forsendum
hafa nægar forsendur til að túlka nokkurn skapaðan hlut. Ástæðan er sú að
íslenska þjóðin í heild er ólæs á myndlist. Með því er ég ekki að halda því fram
að enginn geti haft ánægju af myndlist nema eiga langt háskólanám í listfræð-
um að baki – þó það spilli vissulega ekki fyrir. Ég á við að myndlistaruppeldi
þjóðarinnar sé ábótavant sem þýðir að áhorfendurna sem myndlistarmenn eru
að biðla til skortir lágmarksþekkingu til að nýta það frelsi til túlkunar og
merkingarsköpunar sem þeim er boðið upp á.
Íslenskir myndlistarmenn af yngstu kynslóðinni eru margir þeirrar skoð-
unar að myndlistin eigi að tjá tilfinningar en ekki vera þessi vitsmunalega list
sem arftakar Duchamps kölluðu konseptlist. Þar með er gengið út frá því að
myndlistarverk eigi að geta „talað beint“ til áhorfandans sem auðvitað skiptir
máli þegar áhorfandinn býr yfir takmarkaðri þekkingu sem kemur aftur í veg
fyrir að hann njóti verksins. Lausnin á að vera sú að bjóða upp á verk þar sem
áhorfandinn þarf ekki að skilja neitt heldur á að skynja allt. En jafnvel skynjun
getur verið flókið mál ef áhorfandinn býr ekki yfir neinni þekkingu. Hann
getur verið alveg jafn hjálparvana gagnvart slíku verki því hann áttar sig ekki
á að tilfinningaleg viðbrögð hans, hvort sem það er ánægja eða andúð, er
nákvæmlega það sem listamaðurinn ætlast til að hann upplifi. Í báðum tilvik-
um skortir hann þekkingu til að lesa úr því sem hann upplifir, sér og skynjar.
En hvernig öðlast maður þekkingu á myndlist? Það er mikilvægt að umgang-
ast listaverk, tileinka sér það að horfa, spyrja spurninga og leita svara. Þannig
kynnist maður myndlistarverkum. Það er ekki nóg að sjá það í stutta stund
þótt sú sýn geti skilið eftir hughrif og mótað skoðun okkar. En það að hafa
skoðun er ekki það sama og búa yfir þekkingu. Þekking getur hins vegar haft
áhrif á skoðanir okkar og breytt þeim.