Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 47
TMM 2007 · 4 47
Arndís Þórarinsdóttir
Hnupl
Eftir fyrsta stuldinn fannst Þráni að hann hlyti að bera sekt sína
utan á sér. Að stelpan á kassanum í Melabúðinni sæi á honum
glæpaeðlið, að það hlyti að heyrast í málrómi hans, sem barst
daglega til landsmanna af öldum ljósvakans, að hann væri aumur
þjófur.
En eftir að hafa beðið þess nokkra skelfingarþrungna daga að
víkingasveitin ryddist inn á gólf til hans, þá læddist að honum sú
hugmynd að fara aðra ferð.
Þetta byrjaði með sænskri hannyrðabók úr herbergi frú Auðar.
Hann stóð einn í herberginu þegar upplesturinn á ipodnum sem
hékk um háls honum dró athygli gesta að safni hannyrðabóka í
neðstu hillu bókaskápsins í svefnherbergi húsmóðurinnar að
Gljúfrasteini.
Þráinn leit almennt á sig sem strangheiðarlegan mann – gerði
varla verra af sér en að hlaða einni og einni hljóðbók ólöglega af
internetinu – en áður en hann vissi af var sænsk bók um klukku-
prjón komin í jakkavasa hans.
Það væri ofrausn að kalla hann aðdáanda frú Auðar, þó að hann
hefði auðvitað oft viðurkennt í heyranda hljóði, eins og aðrir
landsmenn, þátt hennar í verkum skáldsins. Án þess að hann væri
kannski að gaspra um það í útvarpsþáttunum, þá er ljóst að snilli-
gáfa krefst mannfórna, og frú Auður þoldi geðvonsku, óreglu í
fjármálum, framhjáhald og mikilmennskubrjálæði með bros á vör
áratugum saman. Eins og henni bar. Eins og hver Íslendingur í
hennar sporum hefði gert með glöðu geði. Hún barði hvert stór-
virkið á fætur öðru á ritvélina, hún hitaði kaffið ofan í skáldið, hún
var ugglaust þess helsta stoð og stytta í veraldlegu vafstri.