Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 124
124 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
annað, og hún brosir svo skín í skjannahvítar tennur. Hún er oft dreymin og er
utan við sig á sjarmerandi hátt. En þegar líður á bókina breytist viðhorfið og
Dasíma reynist (í augum Gísellu) einmitt vera löt (við húsverk), heimsk
(gleymir að elda) og ofbeldishneigð (er í slagtogi við mótmælendur, og ræðst
bókstaflega á Gísellu). Barnsleg einlægni er aðeins dulmál fyrir heimsku. Við
eigum vissulega erfiðara með að gangast við þessari hlið peningsins, okkar
ótrúlega lífseigu goðsögnum um byrðar hvíta mannsins. Egill Helgason fer þó
ekki í felur með það þegar hann segir á vefsíðu sinni:
Það er líka erfitt að horfa framhjá því að flestu hefur hnignað í Afríku síðan nýlendu-
þjóðirnar slepptu takinu. (28. júní 2007, sjá http://eyjan.is/silfuregils/2007/06/28/
afrika-ihlutunarstefna-og-kinverjar/)
Gísella telur sig vera góða manneskju, hún er að gera góðverk með því að skjóta
skjólshúsi yfir konur í erfiðleikum. Á sama tíma er tvískinnungurinn ljós. Hún
telur sig yfirburðamanneskju í samanburði við leigjendurna. Hún vill hjálpa
þeim, kenna Dasímu að halda sig að verki, hjálpa Mörtu að læra tungumálið
betur og aðstoða Önnu með barnið. Hún minnir þannig á Vesturlandabúa sem
vilja óðfúsir hjálpa þróunarlöndum, en sjá ekki stöðu þeirra í samhengi við
sögulega framvindu og pólitískar ákvarðanir. Annars vegar „viljum við hjálpa“
en hins vegar nýtum við okkur valdamismuninn sem er rót vandans til að lifa
vel – það er, á ódýru hráefni og vinnuframlagi.
Það er auðvelt að vera umburðarlyndur, ef maður er á tindi valdastrýtunnar,
öruggur í skjóli vestrænnar velmegunnar. Sagan gengur að töluverðu leyti út á
að sýna hvernig slíkt umburðarlyndi snýst í fjandskap þegar manneskjur með
ólíka hætti og hugsun þurfa að hafa náin samskipti.
Gísella réttlætir sig stöðugt með vísan í uppeldið sem hún hlaut hjá auðugri
ömmu sinni, sem var alltaf svo góð við hana. Af henni telur hún sig hafa lært
„gildi frumbyggjanna“, í borginni, en þeim er lýst svo: í borginni var menn-
ing
sem byggði á því að allir fengju tækifæri til að spreyta sig og aðlagast; svo framarlega
sem þeir fengu dvalarleyfi og lærðu málið hnökralaust, sýndu af sér dugnað í námi
jafnt sem starfi og aðhylltust þau lífsgildi sem höfðu alla tíð verið vaxtarsprotar
borgarandans. (8–9)
Þetta leiðir hugann óneitanlega að hinu endalausa hugsunarlausa tali um
„harðduglegt fólk“ í íslenskri samtímaumræðu, eins og það sé hinn endanlegi
mælikvarði. Ísland var aldrei heimsveldi og það er hugsanlegt að þess vegna sé
rasismi (eða peninga-stétta-ismi) sem þessi talinn eðlilegur í opinberu máli. En
á meginlandi Evrópu muna menn of vel eftir nýlendutímanum og hvernig ok
evrópskra þjóða var jafnan réttlætt á marga vegu, til dæmis með því að hinir
innfæddu (í nýlendunum) væru latir.
Drifkraftur sögunnar liggur í stigvaxandi spennu í samskiptum leigjend-