Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 67
L i t l a r s t ú l k u r o g ú l fa r
TMM 2008 · 4 67
Hann bjargar henni frá Brynjólfi/úlfinum, nemur hana á brott og þau
fara saman til Parísar í lok sögunnar.
Rauðhetta og Sjöfn eru „gyðjur“ í þeim skilningi að þær eru fórnfúsar,
góðar, fallegar og að lokum fá þær umbun fyrir að hafa gengið í gegnum
mikla erfiðleika. Ástæðan fyrir því að Rauðhettu er hegnt er sú að hún
óhlýðnast valdinu, banni foreldrisins. Verðlaunin að lokum er endur-
fæðing hennar eins og kemur fram í útgáfu Grimmsbræðra. Þá hefur
hún lært sína lexíu svo allt endar vel. En ef maður skoðar betur þennan
góða endi má spyrja sig hversu ánægjulegur hann sé fyrir Rauðhettu?
Hún þarf að játa að sökin sé hennar og viðurkenna vald karlmannsins,
eins og kemur í ljós þegar veiðimaðurinn bjargar henni. Án karlmanns-
ins eða valdsins getur stúlkan einungis leiðst í glötun.
En hvað með Sjöfn, þarf hún að lúta þessu sama valdi eða er frum-
kvæðið hennar? Sjöfn virðist vera haldin eins konar sjálfseyðingarhvöt,
hún hefur enga stjórn á lífi sínu heldur lætur karlmönnum eftir að taka
mikilvægustu ákvarðanirnar. Hún kemst ekki úr meðvirknishlutverki
sínu því hún er búin að leika það of lengi. Það sem hræðir hana mest
virðist verða að veruleika. Sjöfn er alveg jafnháð karlmanninum og
móðir hennar, að því leyti er hún orðin eins og hún.
Samkvæmt Dagnýju Kristjánsdóttur er María Sjöfn dæmigerð kven-
ímynd sjötta og sjöunda áratugarins. Sjöfn hefur góða möguleika á
menntun og að verða fjárhagslega sjálfstæð, en í stað þess er hún tilbúin
að fórna öllu fyrir fjölskyldulífið til að komast hjá þeirri skömm að verða
einhleyp og enda sem piparjúnka.18 Á yfirborðinu má telja sér trú um að
sagan endi vel. Draumur þeirra beggja, Sjafnar og Þorkels, rætist og þau
eru á leið í nám út til Parísar. En hvernig er sjálfsímynd Sjafnar, og hvaða
möguleika hefur hún á að brjóta sér braut á listasviðinu eftir að hafa sætt
áreitni frá stjúpföður sínum svo árum skiptir og sofa svo hjá honum að
lokum? Slíkt hlýtur að hafa áhrif og mjög vafasamt að eilíf hamingja sé
framundan. Sjöfn er jafn óvirk hetja og Rauðhetta hjá Grimmsbræðr-
um, og sögurnar enda á svipaðan hátt: Í báðum liggur valdið hjá karl-
manninum.
Freeway
Í byrjun kvikmyndarinnar Freeway (1996) eftir Matthew Bright er
teiknimyndasyrpa af Rauðhettu á hlaupum undan úlfinum á meðan
verið er að kynna leikarana. Með teiknimyndinni er gefið í skyn það
sem koma skal. Í myndinni segir frá unglingsstúlku, Vanessu Lutz
(Reese Witherspoon), sem býr ásamt móður sinni og stjúpföður í