Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Side 81
TMM 2008 · 4 81
Gunnþórunn Guðmundsdóttir
Ævir ljóðskálda
Fyrir jólin 2007 gáfu tvö ljóðskáld, þau Sigurður Pálsson og Ingibjörg
Haraldsdóttir, út sjálfsævisöguleg verk sem nutu töluverðrar athygli og
hlaut fyrrnefnda skáldið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fag-
urbókmennta fyrir sitt framlag. Þótt verkin fjalli bæði um ekki svo fjar-
læga tíma, eru þau á nokkuð ólíkum slóðum í litrófi sjálfsævisögunnar.
Ingibjörg skrifar í ákveðnum skilningi hefðbundna sjálfsævisögu í
Veruleika draumanna: endurminningar, þar sem hún rifjar upp bernsku,
unglings- og skólaár í Reykjavík og veru í Moskvu og Havana. Sigurður
Pálsson einblínir á afmarkaðra tímabil, ár sín í París, í Minnisbók, sem
er eins konar safn af söguþáttum úr fortíð.
Hér er ástæða til að minnast á greinarmuninn sem stundum er gerð-
ur á sjálfsævisögum og endurminningum. Sjálfsævisögur eiga að ná yfir
sem stærstan hluta ævinnar og þróun og þroski persónuleika á gjarnan
að vera í forgrunni, þ.e.a.s. sjálfið. Endurminningar segja hins vegar frá
afmarkaðra tímabili, gjarnan bundnar við einhverja ákveðna atburði,
t.d. eins og minningar úr stríði, af ákveðnum pólitískum tímabilum eða
einhverju slíku, og höfundurinn er þá í hlutverki vitnis (á stundum hlut-
lauss vitnis) sem lýsir atburðunum úr ákveðinni fjarlægð og lítil áhersla
er á sjálfsmynd hans. En hvar myndum við setja verk Ingibjargar og Sig-
urðar niður á þessum ási? Í tímaskilgreiningunni er þetta nokkuð aug-
ljóst, verk Ingibjargar er sjálfsævisaga, Sigurðar endurminningar – en
það er einsýnt að þessar skilgreiningar ná skammt til að kanna muninn
á þeirri sjálfsmynd sem verkin tjá, því Sigurður er hér alls ekki hlutlaust
vitni heldur kafar einmitt nokkuð djúpt í sjálfsmynd unga mannsins
sem hann segir frá; en Ingibjörg lætur á stundum nægja að lýsa sér ungri
og lesandinn þarf nokkuð að geta í eyðurnar um hvað höfundinum
finnst um þessa yngri útgáfu af sjálfri sér.
Stundum eru gjörólíkar bækur (eða höfundar) spyrtar saman vegna
einhverra yfirborðseiginleika, svo sem tímabils eða tungumáls, og saman-