Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Qupperneq 94
D av í ð A . S t e fá n s s o n
94 TMM 2008 · 4
Þetta eru afskaplega mannlegar og kærleiksríkar frásagnir sem sinna
sínu hlutverki yfirleitt ágætlega, þótt stundum sé lopinn teygður óþarf-
lega og mikið smjattað á lykkjum í frásögninni sem gegna ekki öðru
hlutverki en koma að vissum staðreyndum um lífið í sveitinni til forna.
Sjónarhorn fyrstu myndarinnar, „Umskiptingurinn“, er einkar skemmti-
legt, en þar er ungur drengur að nafni Kári í forgrunni. Hann er mið-
lægur í gegnum bókina, þótt í sumum textanna taki við óskilgreindur
og alvitur sögumaður sem horfir eins og ofan frá á atburðina. Inn á
milli, t.d. í fyrstu sögunni, stígur hinn fullorðni Kári hálfpartinn fram
til að skilgreina frásögnina:
Einhvers staðar mitt í þessum friði tók Kári eftir því að hann var til og hvar hann
var til. Hann man sumt frá þessum dögum, flestu hefur hann þó líklega gleymt.
Af hinum hæggengu tuttugu og fjórum stundum sólarhringsins eru ekki eftir
nema sekúndubrot. Hann hefur stundum reynt, einkum eftir að hann varð gam-
all maður, að finna þessa sveit. En honum hefur ekki tekist það. Hún er líklega
horfin með öllu. Og þó. (12)
Þannig eru Sögur úr Síðunni leit að glötuðum tíma, horfnum tilfinn-
ingum og gömlum íverustöðum bernskunnar, svo sem eins og háttur er
með flestar endurminningabækur, sama hvort þær eru formlega skáld-
aðar eður ei. Kári hinn gamli reynir af bestu getu að endurheimta
stemningu Síðunnar.
„[Þ]að rennur hægt og hægt upp fyrir Kára að þeir Barði eiga heima í
landi sem heitir Ísland. Sveitin þeirra heitir Síðan. / Hún mun vera
nálægt miðju heimsins.“ (8) Kári er miðja sögunnar, Síðan er miðja
Íslands, Ísland er miðja heimsins, og í heiminum geisar stríð sem snert-
ir alla tilveruna. Það er erfitt að ná utan um þetta hugtak, stríð, en Kári
litli reynir þó eftir veikum mætti:
Fullorðna fólkið talar ekki um annað en stríð og Kári veit alveg hvað það er.
Hann hefur séð mynd á póstkorti af Skarphéðni Njálssyni að drepa Þráin
Sigfússon. Hann þekkir að vísu hvorki Skarphéðin né Þráin en á myndinni er
annar með öxi og hinn liggur dauður í blóðpolli. Það er stríð. (8)
Heiminum og stórviðburðum þar er líka stillt upp sem skemmtilegum
hliðstæðum við „stórviðburði“ í Síðunni:
Haustið sem Þjóðverjar töpuðu við El Alamein og lokuðust inni í Stalíngrad
komu mislingarnir í Síðuna. (36)